Swansea vann án Gylfa í Southampton

Jonjo Shelvey fagnar sigurmarki sínu.
Jonjo Shelvey fagnar sigurmarki sínu. AFP

Í fjarveru Gylfa Þórs Sigurðssonar, sem tók út fyrsta leik af þremur í leikbanni, tókst Swansea engu að síður að vinna frábæran 1:0-útisigur á Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Southampton var mun meira með boltann í leiknum en Swansea-menn vörðust fimlega og gáfu fá færi á sér. Jonjo Shelvey skoraði svo eina mark leiksins með frábæru skoti á 83. mínútu. Varamaðurinn Sadio Mané fékk tvö dauðafæri fyrir Southampton eftir það en varnarmaðurinn Ashley Williams, fyrirliði Swansea, náði með ótrúlegum hætti að bjarga á marklínu í bæði skiptin.

Ryan Bertrand fékk að líta rauða spjaldið undir lokin fyrir glæfralega tæklingu sem varð til þess að bera þurfti Modou Barrow af leikvelli.

Swansea komst með sigrinum upp í 9. sæti og er með 33 stig en Southampton er í 4.-5. sæti með 42 stig, jafnt Arsenal að stigum og stigi á eftir Manchester United.

Fylgst var með gangi mála í ENSKA BOLTANUM Í BEINNI að vanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert