Dramatískur sigur Liverpool - Eiður skoraði

Eiður Smári er hér að skora úr vítaspyrnunni.
Eiður Smári er hér að skora úr vítaspyrnunni. AFP

Liverpool mátti svo sannarlega hafa fyrir því að komast áfram í 16-liða úrslitin í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í kvöld þegar liðið lagði Bolton á útivelli, 2:1.

Eiður Smári Guðjohnsen kom Bolton yfir með marki úr vítaspyrnu á 59. mínútu en rúmum fimm mínútum síðar var Neil Danns leikmaður Bolton rekinn af velli. Skömmu síðar átti Eiður dauðfæri þegar hann skallaði boltann beint á Mignolet af stuttu færi.

Liverpool sótti stíft það sem eftir lifði leiksins en það var ekki fyrr en á 86. mínútu sem Raheem Sterling jafnaði metin og á 1. mínútu í uppbótartíma skoraði Brasilíumaðurinn Philippe Couthinho sigurmarkið með glæsilegu skoti.

Eiður Smári lék allan tímann fyrir Bolton og átti flottan leik og það kæmi engum á óvart ef hann yrði í landsliðshópnum gegn Kasakstan í næsta mánuði.

Liverpool sækir Crystal Palace heim í 16-liða úrslitunum.

Beina lýsingin:

90+5 Leiknum er lokið með 2:1 sigri Liverpool.

90+1 MARK!! Liverpool er komið í 2:1. Brasilíumaðurinn Philippe Coutinho skoraði með glæsilegu skoti í slá og inn. Liverpool er á leið í 16-liða úrslitin.

87. MARK!! Liverpool var að jafna metin. Raheem Sterling skoraði með viðstöðulausu skoti eftir frábæra sendingu frá Emre Can.

83. SLÁIN!! Enn er tréverkið að bjarga Bolton. Can átti þrumuskoti sem Lonergan varði glæsilega í slána. Liverpool pressar stíft þessar mínútur.

79. Liverpool í stórsókn en heimamönnum tókst að bægja hættunni frá á síðustu stundu.

75. STÖNG!! Boltinn aftur í tréverkið hjá Bolton. Eftir skot Jordans Henderons fór boltinn af varnarmanni og í stöngina.

71. Dauðafæri!! Eiður Smári í dauðafæri en kollspyrna hans af suttu færi fór beint í fangið á Mignolet.

70. Daniel Sturridge er kominn inná í liði Liverpool fyrir Joe Allen. Nær Sturridge að bjarga málunum fyrir Liverpool?

65. Rautt spjald!! Bolton er orðið manni færri. Neil Danns fær að líta sitt annað gula spjald og hefur lokið keppni.

59. MARK!! Bolton er komið í 1:0. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði úr vítaspyrnu sem Bolton fékk á silfurfati. Martin Skrtel var dæmdur brotlegur en ekki var að sjá að snertingin hefði verið mikil. Eiður var hins vegar svellkaldur á punktinum og setti boltann nánast í mitt markið.

57. Pressan er að aukast á mark Bolton.

53. Raheem Sterling í færi í vítateignum hjá Boltion en Lonergan markvörður Bolton varði skotið vel þegar Sterling reyndi að skrúfa boltann í hornið.

46. Síðari hálfleikur er hafinn. Engar breytingar voru gerðar á liðunum.

45+1 Það er kominn hálfleikur. Staðan er, 0:0. Bolton-menn geta verið sáttir við frammistöðu sína. Þeir gefa úrvalsdeildarliðinu ekkert eftir.

35. Eiður Smári hefur sýnt ágæta takta. Boltinn er hans besti vinur og oftar en ekki leita samherjar Eiðs að honum.

31. STÖNGIN!! Minnstu munaði að Raheem Sterling kæmi Liverpool yfir en boltinn fór í utanverða stöngina eftir skot hans úr teignum.

24. Fyrri hálfeikur er hálfnaður og staðan enn markalaus. Það er jafnræði með liðunum.

16. Eiður Smári var í þokkalegu færi í teignum en skot hans með vinstri fæti var misheppnað. Bolton gefur Liverpool ekkert eftir.

Eiður Smári í baráttu við Mamadou Sakho í fyrri leiknum …
Eiður Smári í baráttu við Mamadou Sakho í fyrri leiknum á Anfield. AFP


13.
Raheem Sterling var kominn í ágætt færi en skotið hjá honum var ekki nógu fast og Lonergan markvörður Bolton náði að handsama boltann í annarri tilraun.

10. Það hefur fátt gerst fyrstu 10 mínútur leiksins. Liðin eru að þreifa fyrir sér og við bíðum enn eftir fyrsta marktækifærinu.

1. Leikurinn er hafinn

0. Liðin gerðu markalaust jafntefli á Anfield í síðustu viku.

0. Steven Gerrard leikur í kvöld sinn 700. leik fyrir Liverpool.

0. Emile Heskey glímir við meiðsli og getur ekki spilað með Bolton í kvöld gegn sínu gamla liði.

0. Sigurliðið mætir Crystal Palace í 16-liða úrslitunum.

0. Bolton hefur ekki tapað heimaleik frá því Neil Lennon tók við stjórn Bolton í október.

Lið Bolton: Lonergan, Moxey, Mills, Ream, Feeney, Dervite, Danns, Eiður Smári, Vela, Wheater, Clough. Varamenn: Fitzsimons, McNaughton, Hall, Trotter, Threlkeld, Iliev, Walker.

Lið Liverpool: Mignolet, Can, Skrtel, Sakho, Allen, Gerrard, Moreno, Markovic, Lallana, Coutinho, Sterling. Varamenn: Ward, Johnson, Borini, Henderson, Sturridge, Lambert, Manquillo.
Philippe Coutinho og Neil Danns í baráttu um boltann.
Philippe Coutinho og Neil Danns í baráttu um boltann. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert