Varð að banna franskar

David Moyes var látinn fara frá Manchester United seint á …
David Moyes var látinn fara frá Manchester United seint á síðustu leiktíð. EPA

David Moyes, knattspyrnustjóri Real Sociedad, segir að nokkrir leikmanna Manchester United hafi verið of þungir á þeim tíma sem hann stýrði liðinu á síðustu leiktíð. Við því hafi hann þurft að bregðast.

Rio Ferdinand gagnrýndi Moyes í sjálfsævisögu sinni fyrir það að hafa til að mynda bannað leikmönnum að borða franskar daginn fyrir leik, eins og þeir hafi verið vanir. Skotinn segist hafa neyðst til að taka franskar af matseðlinum á æfingasvæði United.

„Já, ég bannaði franskar. Það var vegna þess að nokkrir leikmannanna voru of þungir og ég taldi að franskar væru ekki góðar fyrir þá,“ sagði Moyes við Four Four Two. Hann var einnig spurður út í ummæli þess efnis að United ætti að stefna að því að verða eins og Manchester City, eftir 3:0-tapið gegn City á Old Trafford.

„Ég myndi aldrei segja það. Ég kann að hafa sagt að við ættum að stefna á að spila eins og eitt af efstu liðunum þegar við vorum ekki í þeim hópi, en ég myndi aldrei segja að Manchester United ætti að reyna að vera eins og Manchester City. Það held ég að sé ekki eitthvað sem nokkur United-stuðningsmaður myndi vilja,“ sagði Moyes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert