Misjöfn viðbrögð við HM að vetri til

Teikning af nýjum velli sem á að rísa fyrir HM …
Teikning af nýjum velli sem á að rísa fyrir HM í Katar. AFP

Knattspyrnustjórar í ensku úrvalsdeildinni hafa brugðist misjafnlega við þeim hugmyndum að heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2022 sem fram fer í Katar muni verða spilað að vetri til.

HM er venjulega spilað í júní og fram í júli, en þessi breyting mundi riðla deildarkeppnum víðsvegar um heiminn, þar á meðal á Englandi. Forsvarsmaður ensku úrvalsdeildarinnar hefur sagt ákvörðun FIFA vera mjög svekkjandi. Afstaða stjóra í deildinni er hins vegar ekki jafn eindregin.

Alan Pardew, knattspyrnustjóri Crystal Palace, segir að taka verði tillit til aðstæðna þar sem Katar hafi unnið kapphlaupið um að halda mótið. „Ég er viss um að við getum hliðrað okkar deildum og skipulögum að því. Þetta getur virkað vel, hví ekki?“

Sean Dyche, stjóri Burnley, er hins vegar á öðru máli. „Þetta þóknast mér ekki, ég er gamaldags hvað það varðar að ég hlakka til loka tímabils þegar HM er framundan. Það er tengt öllum þeim árum sem ég hef verið í boltanum og man eftir síðan ég var krakki.“

John Carver, stjóri Newcastle, veltir einnig upp spurningum um ákvörðunina. „Hvernig fer þetta með Afríkukeppnina? Ef löng komast til að mynda inn á HM og einnig í Afríkukeppnina fá leikmenn ekki mikið frí. En ég mun styðja þá afstöðu sem enska úrvalsdeildin mun taka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert