Wenger vill að menn svari fyrir sig

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var skiljanlega þráspurður um tap liðsins fyrir Mónakó í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á fréttamannafundi í morgun, en liðið er í slæmri stöðu eftir 3:1-tap á heimavelli í fyrri leiknum.

„Við börðumst hart um að komast upp úr riðlinum og þess vegna er pirrandi að svona hafi leikurinn farið, sérstaklega því við höfum fallið úr keppni á þessu stigi síðustu fjögur árin. Þú spilar 55 leiki á ári og maður er vonsvikinn eftir suma,“ sagði Wenger en vildi ekki gagnrýna einstaka leikmenn.

„Það er enginn einstaklingur sem hægt er að kenna um heldur brást allt liðið þetta kvöld. Allt var á móti okkur og öll færin sem fóru forgörðum voru dýr. Það sem skiptir máli er að svara vel fyrir sig. Við erum stórt félag og ábyrgðin er mikil. Við ætlum að halda okkur í toppbaráttu í deildinni,“ sagði Wenger.

Hann staðfesti einnig á fundinum í morgun að Jack Wilshere hefði gengist undir aðgerð vegna meiðsla á ökkla, en hann þurfti einnig að gera það í nóvember. Þó eru einnig jákvæðar fréttir úr herbúðum liðsins því Aaron Ramsey og Mathieu Flamini eru nálægt endurkomu.

Arsene Wenger hefur verið þyngri á brún en venjulega eftir …
Arsene Wenger hefur verið þyngri á brún en venjulega eftir tapið fyrir Mónakó. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert