Chelsea er deildabikarmeistari í fimmta sinn

Chelsea var nú rétt í þessu að hampa enska deildabikarmeistaratitlinum í knattspyrnu í fyrsta sinn frá árinu 2007 þegar liðið lagði Tottenham í úrslitaleik á Wembley, 2:0. Þetta er í þriðja sinn sem Chelsea krækir í þennan titil undir stjórn Jose Mourinho og í fimmta sinn í sögu félagsins.

Tottenham byrjaði þó af krafti, og Christian Eriksen átti meðal annars þrumuskot í þverslána beint úr aukaspyrnu snemma leiks. Undir lok fyrri hálfleiks kom fyrsta markið, en það skoraði fyrirliði Chelsea, John Terry, með skoti af stuttu færi úr teignum eftir að Tottenham náði ekki að hreinsa frá eftir hornspyrnu. 1:0 í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik bætti Diego Costa við marki fyrir Chelsea, þegar skot hans fór af Kyle Walker og í netið úr þröngu færi í teignum og róðurinn varð þungur fyrir Tottenham. Cesc Fábregas var svo nálægt því að bæta við marki með glæsilegri bakfallsspyrnu, en Hugo Lloris hélt Spurs á floti í marki þeirra.

Þung pressa Tottenham undir lokin bar ekki árangur og 2:0 sigur Chelsea var staðreynd og eru þeir deildabikarmeistarar. Það má því segja að Chelsea hafi komið fram hefndum, en þessi sömu lið mættust einmitt í úrslitaleik keppninnar árið 2008 þar sem Tottenham fagnaði sigri.

Fylgst var með gangi mála í ENSKA BOLT­AN­UM Í BEINNI hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert