Carragher hrósar Rodgers í hástert

Jamie Carragher og Brendan Rodgers.
Jamie Carragher og Brendan Rodgers. AFP

Jamie Carragher fyrrverandi leikmaður Liverpool og sparkspekingur Sky-sjónvarpsstöðvarinnar hrósar Brendan Rodgers knattspyrnustjóra Liverpool í hástert fyrir frammistöðu liðsins á árinu þar sem liðið hefur staðið sig best allra í ensku úrvalsdeildinni og fengið 20 stig af 24 mögulegum.

„Hver einasti knattspyrnustjóri hrósar leikmönnum sínum, réttilega, en Brendan Rodgers hefur staðið sig framúrskarandi vel þar sem það voru fimm nýir leikmenn sem komu til félagsins í sumar,“ sagði Carragher.

„Það er nefnd sem sér um leikmannakaup hjá Liverpool og Brendan Rodgers er hluti af henni. Það er ekki möguleiki að Emre Can hafi verið keyptur inn sem hægri miðvörður eða Dejan Lovren sem vinstri miðvörður eða þá Moreno sem vængbakvörður. Þeir voru það ekki,“ sagði Carragher.

„Þessir leikmenn komu til félagsins og Rodgers var hluti af því en hann fann út kerfi sem hentar þessum leikmönnum vel. Kerfi sem var upphaflega ekki ætlunin að spila fram á við. Hann fann leið til að ná því besta úr leikmönnum,“ sagði Carragher.

„Knattspyrnustjórinn á allt hrós skilið og ekki bara af því að Liverpool spilar vel og vinnur leiki heldur vegna þess að hann upphugsaði leikstíl sem meistararnir réðu ekki við,“ sagði Carragher.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert