Gylfi verður klár gegn gömlu félögunum

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. EPA

Gylfi Sigurðsson verður klár gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á miðvikudag en þetta sagði knattspyrnustjóri Swansea Garry Monk við BBC í dag.

Gylfi missti af leik Swansea gegn Burnley um helgina en verður klár gegn sínum gömlu félögum á miðvikudagskvöld en leikið verður á White Hart Lane.

„Hann hefur snúið aftur til æfinga og æfði í vikunni og við búumst við því að hann snúi aftur í hópinn, það er víst,“ sagði Monk.

Gylfi er ekki eini fyrrverandi Tottenham-maðurinn í hópi Swansea en það er einnig bakvörðurinn Kyle Naughton.

„Það kemst ekkert í líkingu við það að spila gegn sínu gamla félagi. Leikmenn vilja sýna af hverju liðin eru að missa. Þeir þurfa að færa sönnur á að það sé eitthvað [sem fólk er að missa af] og ég er viss um að þeir munu gera það,“ sagði Monk.

„Þetta verður erfiður leikur, Tottenham hefur gott lið og þeir hafa sín eigin markmið og eigin verk að vinna. En við hlökkum til, þetta verður góður leikur á frábærum velli gegn góðu liði. Leikur liðanna hér fyrr á leiktíðinni [Þegar Spurs vann 2:1 á Liberty-vellinum] var frábær,“ sagði Monk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert