Joe Allen er mjög vanmetinn leikmaður

Brendan Rodgers gat fagnað í gær í rigningunni á Anfield.
Brendan Rodgers gat fagnað í gær í rigningunni á Anfield. AFP

Liverpool er aðeins tveimur stigum á eftir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni þegar 27 umferðir hafa verið leiknar en liðið mætir Burnley á miðvikudag. Þar munu leikmenn Brendans Rodgers leitast til við að spila sinn tólfta leik í deildinni í röð án taps en knattspyrnustjórinn segir sjálfstraustið í liðinu mikið.

„Sá leikstíll sem við spiluðum gegn City, andlegi þátturinn jafnt sem líkamlegi, var ótrúlegur eftir langt ferðalag í miðri viku. Sjálfstraustið er mikið og frammistaða leikmanna góð. Við nutum sigursins en nú einbeitum við okkur að næsta leik,“ sagði Rodgers.

Rodgers hrósaði einnig sigurmarki Brasilíumannsins Philippes Coutinhos gegn City um helgina og segir leikmanninn koma til greina sem einn af þeim sem eigi að sanka að sér einstaklingsverðlaunum í lok leiktíðar.

„Hann á sannarlega að vera einn af þeim. Hann spilaði vel. Hann er leikmaðurinn sem sendir síðustu sendinguna til þeirra sem skora mörkin. Liðið spilar mjög vel, strúkturinn og pressan ásamt hreyfingunni án bolta, allt þetta leyfir honum að njóta sín,“ sagði Rodgers.

„Það er þröng á þingi við efstu fjögur sætin. Það hefur hins vegar alltaf verið markmiðið hjá okkur að vera þar. Við munum halda áfram að elta allt til loka,“ sagði Rodgers um baráttuna um meistaradeildarsæti.

Á blaðamannafundinum talaði Rodgers einnig um Joe Allen sem átti frábæran dag gegn Manchester City í gær.

„Joe Allen er mjög vanmetinn leikmaður. Hann var einn af fyrstu leikmönnunum sem ég vildi fá til Liverpool. Hann var ótrúlegur gegn City. Hann hafði svo mikið hugrekki að sækja boltann, hann leyfir öðrum leikmönnum að njóta sín. Að fá hann á 15 milljónir punda var frábært fyrir okkur,“ sagði Rodgers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert