36 stig eru í pottinum og við þurfum 31

José Mourinho fagnaði titilinum vel og innilega á sunnudaginn.
José Mourinho fagnaði titilinum vel og innilega á sunnudaginn. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea var ómyrkur í máli á blaðamannafundi í dag þegar hann talaði um titilmöguleika síns liðs en Chelsea spilar við West Ham á morgun.

„Við eigum tólf leiki eftir, sex heima, sex úti og höfum fimm stiga forskot, sem er ekki mikið í þessari keppni. Við þurfum að einbeita okkur að okkur sjálfum og að vinna leiki. Við þurfum einng að vera í tilfinningalegu jafnvægi ef úrslitin verða okkur ekki í hag. Það eru 36 stig í pottinum og við þurfum 31,“ sagði Mourinho.

José Mourinho vafðist ekki tunga um tönn þegar hann talaði um John Terry og samningamál hans.

„Ég veit hvað stjórnin segir mér og leikmaðurinn segir mér, á því leikur enginn vafi, hann mun fá samning,“ sagði Mourinho en samningurinn liggur að sögn Portúgalans á borðinu, það á bara eftir að skrifa undir.

„Það er erfitt að fylla skörð allra þessara stóru leikmanna, en þú verður að hugsa út í það hver eigi að taka við og hver sé besta leiðin til að framkvæma hlutina.“

Aðspurður út í fagnarlætin á sunnudag þegar Chelsea vann deildarbikarinn sagði Mourinho:

„Ég gerði allt sem þið sáuð en ekkert eftir það. Fór bara heim, borðaði kvöldmat og fékk mér kampavínsglas. Við æfðum daginn eftir. Við gengum af göflunum á vellinum en ekkert meira eftir það,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert