Óvissan hefur hjálpað mér

Diego Costa og John Terry.
Diego Costa og John Terry. AFP

John Terry fyrirliði Chelsea segist vera að berjast fyrir því að fá nýjan samning hjá liðinu eftir leiktíðina en félagið hefur þá stefnu að semja ekki við leikmenn eldri en þrítuga til meira en eins árs í senn.

„Ég er að berjast fyrir sjálfan mig, fjölskylduna og að sanna að fólk hafi haft rangt fyrir sér. Ég veit ekki hversu mikið ég á eftir af ferlinum. Vonandi nokkur ár en ef þetta er mitt síðasta ár vil ég fara með látum,“ sagði Terry.

Terry hefur spilað fyrir Chelsea frá árinu 1998, eða í sautján ár, og sér ekki fyrir sér að spila með öðru liði.

„Nei, ég tel að þá yrði það rétti tíminn til að hætta. En mér líður vel núna og það væri rangt að hætta núna. Tíminn mun samt koma og þá vil ég að hann sé réttur, þá man fólk eftir þér,“ sagði Tery sem segir óvissuna um samningamál hafa hjálpað sér.

„Þessi óvissa hefur hjálpað mér, að hafa ekki fjögurra eða fimm ára samning. Hlutverkin hafa snúist, nú er valdið í höndum félagsins og það hefur veitt mér innblástur,“ sagði Terry.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert