Southampton upp fyrir Liverpool - Villa úr fallsæti

Sadio Mané skorar hér sigurmark Southampton.
Sadio Mané skorar hér sigurmark Southampton. AFP

Sadio Mané tryggði Southampton dýrmætan 1:0-sigur á Crystal Palace á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Þremur leikjum var að ljúka.

Mané skoraði markið eftir að hafa fylgt á eftir skoti frá James Ward-Prowse sem var varið, þegar 10 mínútur lifðu leiks. Með sigrinum komst Southampton upp fyrir Liverpool í 5. sæti deildarinnar. Arsenal er með 51 stig í 3. sæti, Man. Utd með 50 stig, Southampton 49 og Liverpool 48. Southampton hefur leikið leik meira en hin liðin þrjú sem verða á ferðinni annað kvöld.

Christian Benteke tryggði Aston Villa dramatískan sigur á WBA með marki úr vítaspyrnu á fjórðu mínútu uppbótartíma. Vítaspyrnan var dæmd eftir mistök Ben Foster sem felldi Matthew Lowton innan teigs. Gabriel Agbonlahor hafði komið Villa yfir á 23. mínútu en Saido Berahino jafnaði metin á 66. mínútu.

Villa komst þar með úr fallsæti og er með 25 stig, þremur stigum fyrir ofan QPR og Burnley sem eru í fallsætum en eiga leiki til góða.

Hull og Sunderland gerðu 1:1-jafntefli og eru bæði nærri fallsvæðinu. Sunderland er fjórum stigum frá fallsæti og Hull stigi ofar. Það var Dame N'Doye sem kom Hull yfir á 15. mínútu en Jack Rodwell jafnaði metin korteri fyrir leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert