Þarf ekki að vinna einn titil á ári

Manuel Pellegrini knattspyrnustjóri Manchester City á ekki sjö dagana sæla …
Manuel Pellegrini knattspyrnustjóri Manchester City á ekki sjö dagana sæla í starfi sínu. AFP

Manuel Pellegrini knattspyrnustjóri Manchester City þvertók fyrir þær sögusagnir sem heyra mátti í enskum fjölmiðlum í dag að hann myndi missa starf sitt ynni hann ekki að minnsta kosti einn bikar á leiktíðinni.

The Guardian fullyrti í dag að Pellegrini myndi missa stafið ef hann næði ekki að vinna annaðhvort ensku deildina eða Meistaradeild Evropu. Tapið gegn Liverpool um helgina þýðir að liðið er enn fimm stigum á eftir Chelsea sem á leik til góða og þá er liðið í slæmri stöðu í Meistaradeildinni eftir að hafa tapað gegn Barcelona 2:1 í Manchester.

„Ég hef aldrei verið með neina pressu á mér hvað varðar magn titla. Sú pressa sem ég finn fyrir er þegar ég sé ekki liðið mitt spila eins og ég vil að það geri,“ sagði Pellegrini en liðið leikur gegn botnliði Leicester á morgun.

„Ég skal endurtaka. Þegar ég skrifaði undir samning minn var mér ekki sagt að ég þyrfti að vinna einn titil á ári, fimm titla á fimm árum. Titillinn er mikilvægur en ekki það eina mikilvæga,“ sagði Pellegrini sem segir að allir leikmenn ættu að vera klárir gegn Leicester annað kvöld.

„Allt liðið er klárt en við munum sjá hvernig nokkrum leikmönnum gengur í endurheimtinni eftir leikinn á sunnudag,“ sagði Pellegrini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert