Frammistaða Gylfa er margfalt betri

Gylfi Þór Sigurðsson hefur staðið sig mun betur en Erik …
Gylfi Þór Sigurðsson hefur staðið sig mun betur en Erik Lamela sem tekinn var fram yfir hann hjá Tottenham. EPA

Gylfi Þór Sigurðsson snýr aftur á sinn gamla heimavöll í kvöld þegar Swansea heimsækir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni. Gylfi var sem kunnugt er seldur frá Lundúnaliðinu í sumar, en tölfræðin segir að frammistaða hans í vetur sé mun betri en hjá þeim sem Tottenham ákvað frekar að treysta á.

Gylfi er borinn saman við Argentínumanninn Erik Lamela, sem var keyptur fyrir metfé fyrir einu og hálfu ári. Á sínu fyrsta tímabili spilaði hann einungis sautján leiki og stóð ekki undir 30 milljón punda verðmiðanum, en engu að síður var ákveðið að treysta frekar á hann og leyfa Gylfa að fara til Swansea í sumar.

Því er haldið fram í enskum fjölmiðlum í dag að forráðamenn Tottenham hafi þarna gert sig seka um tvö afdrífarík mistök; annars vegar að kaupa Lamela á þessa upphæð og hins vegar að leyfa Gylfa að fara. Enda lýgur tölfræðin ekki ef þeir eru bornir saman það sem af er tímabili.

Gylfi hefur skorað að meðaltali 0,2 mörk í leik, en Lamela 0,05 mörk í leik. Þá hafa 50% skota Gylfa ratað á markið, gegn 44% hjá Lamela. Gylfi á einnig fleiri lykilsendingar og skapar fleiri færi fyrir félaga sína auk þess sem 85% sendinga hans rata á samherja á móti 83% hjá Lamela.

Í heildina voru þeir bornir saman á sjö sviðum og hafði Gylfi betur á sex þeirra. Innifalið í því voru þó ekki markaskorun, en Gylfi hefur skorað fjögur deildarmörk fyrir Swansea á tímabilinu en Lamela einungis eitt. Það er því ljóst að okkar maður er að standa sig mun betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert