Óttaðist um starf sitt hjá Liverpool

Brendan Rodgers.
Brendan Rodgers. EPA

Brendan Rodgers knattspyrnustjóri Liverpool segist ekki hefðu orðið hissa ef hann hefði verið látinn taka pokann sinn fyrr á leiktíðinni.

Þegar Liveropool tapaði fyrir Crystal Palace, 3:1, í nóvember óttaðist Rodgers um starf sitt. Eftir það skynjaði Rodgers að breyting yrði að verða á gengi liðsins ef það ætti að bjarga tímabilinu og hann að halda starfi sínu.

Það hafa heldur betur orðið umskipti á gengi Liverpool en það hefur ekki tapað leik á árinu og á í kvöld möguleika á að komast í fjóða sæti deildarinnar en liðið mætir nýliðum Burnley.

„Eftir leikinn á móti Palace fann ég að það skipti ekki mál hve mikinn stuðning þú hefðir. Liðið virkaði ekki og þetta gat ekki haldið áfram svona. En ég neitaði að gefast upp. Ég berst alltaf fyrir lífinu. Ég elska það að vera hér og ég vil verða sigursæll. Ég skildi stöðuna. Reynsla mín hjá Reading sagði mér það. Það lærði ég þegar ég var rekinn þaðan,“ segir Rodgers.

Liverpool er með 48 stig í 6. sæti deildarinnar og er aðeins tveimur stigum á eftir Manchester United sem er í fjórða sætinu og þremur stigum á eftir Arsenal sem er í þriðja sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert