Evans var ekki meðvitaður um hrákann

Louis van Gaal.
Louis van Gaal. AFP

Louis van Gaal knattspyrnustjóri Manchester United segir varnarmann sinn Johnny Evans ekki hafa verið meðvitaðan um að hafa hrækt í átt að leikmanni Newcastle, Papiss Cisse í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í gær.

„Þetta er eins og ég sagði eftir leikinn. Hann var ekki meðvitaður um að hann væri að hrækja. Það er eðlilegt af manneskja á hrækja á jörðina, tel ég,“ sagði van Gaal á blaðamannafundi í dag.

„Þetta var ekki viljaverk eins og ég hef áður sagt. Ég get ekki ímyndað mér Johnny Evans gera þetta, hann hefur líka sagt það. Fyrir mér er málið búið,“ sagði van Gaal.

Van Gaal talaði um annað en hráka á blaðamannafundinum í dag sem haldinn var vegna leik United við Arsenal í átta liða úrslitum FA-bikarsins næstkomandi mánudag. Hollendingurinn telur að tveir sigrar í röð eftir tapið gegn Swansea hafi haft góð áhrif á liðið.

„Þegar þú vinnur þá hefur það góð áhrif á næsta leik. Eftir tapið gegn Swansea höfum við unnið tvo leiki, okkur líður því vel. Það lið sem vinnur á mánudag verður vel í stakk búið til að takast á við komandi baráttu í næstu deildarleikjum,“ sagði van Gaal.

„Ég vil ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur og það er að ná einu af efstu fjórum sætum deildarinnar. Bikar þar að auki, yrði líka frábær,“ sagði van Gaal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert