„Gaman að skora á móti gamla liðinu“

Gylfi Þór í baráttunni á White Hart Lane í gærkvöld.
Gylfi Þór í baráttunni á White Hart Lane í gærkvöld. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt 20. mark í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld þegar hann skoraði síðara mark Swansea í 3:2 tapi gegn Tottenham á White Hart Lane í gærkvöld.

Gylfi mætti á sinn gamla heimavöll og fékk góðar móttökur en hann lék með Lundúnaliðinu tvö tímabil frá 2012-14.

Gylfi skoraði 7 mörk í 18 leikjum með Swansea árið 2012. Hann skoraði 8 mörk í 58 leikjum með Tottenham frá 2012-14 og hefur skorað 5 mörk í 23 leikjum með Swansea á tímabilinu.

„Það er ekki auðvelt að spila á White Hart Lane. Tottenham er með gott liðið og það vildi sýna það og sanna eftir tapleikinn á móti Chelsea í úrslitaleiknum í deildabikarnum. Við vorum næstum því búnir að fá eitthvað út úr leiknum en heilt yfir þá held ég að Tottenham hafi haft góð tök á leiknum,“ segir Gylfi á vef Swansea.

„Það var gaman að skora mark á móti mínu gamla félagi en það hefði verið betra að fá eitthvað út úr leiknum. Við getum samt tekið jákvæða hluti með okkur frá þessum leik,“ sagði Gylfi.

Gylfi og félagar eiga frí um helgina þar bikarkeppnin ræður ríkjum. Swansea féll úr leik í bikarnum eftir tap á móti Blackburn þar sem Gylfi fékk sitt fyrsta rauða spjald á ferlinum. Næsti leikur Swansea er gegn Liverpool á Anfield þann 16. þessa mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert