Arsenal og Roma berjast um Cech

Petr Cech.
Petr Cech. AFP

Tékkneski markvörðurinn  Petr Cech mun vera undir smásjánni hjá Arsenal og Roma um þessar mundir en hann hefur verið úti í kuldanum hjá Chelsea á leiktíðinni og vill ólmur róa á önnur mið í sumar. 

Hermt er að félögum séu tilbúin að greiða um 10 milljónir punda, um tvo milljarða króna, fyrir markvörðinn vaska sem lengi hefur staðið vaktina hjá Chelsea og verið í herbúðum félagsins í 11 ár. 

Þá  er einnig uppi orðrómur þess efnis að tyrkneska liðið Besiktas leiti að markverði og renni þar af leiðandi hýru auga til Tékkans sterka. 

Cech, sem á eitt ár eftir af samningi sínum hjá Chelsea, er sagður hafa áhuga á að vera áfram í London ef mögulegt er þar sem fjölskylda hans hefur komið sér vel fyrir og líkar veran vel. 

Roma mun hins vegar vera tilbúið að greiða Cech betri laun en Arsenal, eftir því sem enskir fjölmiðlar herma, eða allt að 90.000 pund á viku, jafnvirði um 18 milljóna króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert