Welbeck getur mætt Liverpool

Danny Welbeck í landsleik Englands og Litháens um síðustu helgi.
Danny Welbeck í landsleik Englands og Litháens um síðustu helgi. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að góðar líkur séu á því að Danny Welbeck, framherji enska landsliðsins, verði leikfær þegar Arsenal fær Liverpool í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á laugardaginn.

Welbeck varð fyrir meiðslum í hné í landsleik Englands og Litháens á dögunum en þau reyndust ekki alvarleg. „Hann er afar mikilvægur leikmaður sem skorar mörk og vinnur fyrir liðið. Hann hefur líka bætt hjá sér tæknina," sagði Wenger um framherjann.

Hann staðfesti hinsvegar að þeir Alex Oxlade-Chamberlain, Mikel Arteta, Jack Wilshere, Abou Diaby og Mathieu Debuchy væru allir farnir að æfa eftir meiðsli en væru ekki ennþá tilbúnir í leik.

„Maður verður alltaf að reyna að ná þeim markmiðum sem eru enn tölfræðilega möguleg en það er ekki alfarið í okkar höndum. Það eina sem við getum gert er að fá allt sem við getum út úr okkar leikjum," sagði Wenger á fréttamannafundi sínum sem nú stendur yfir.

Hann sagði að það væri ekki einfalt að taka unga leikmenn inn í lið í toppbaráttu í ensku úrvalsdeildinni í dag. „Maður verður að vera mjög hugrakkur til að skella þeim inn því pressan er svo mikil," sagði Frakkinn.

Um andstæðingana á laugardaginn sagði hann: „Ég ber mikla virðingu fyrir Liverpool en ég einbeiti mér alfarið að leiknum sjálfum og að við náum að sýna samskonar frammistöðu og í undanförnum leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert