Verðum bara fimm mínútur að semja

Mikel Arteta í leik gegn Everton.
Mikel Arteta í leik gegn Everton. AFP

Mikel Arteta, spænski miðjumaðurinn og fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Arsenal, kveðst fullviss um að gengið verði frá framlengingu á samningi hans mjög fljótlega en hann hefur verið mikið frá keppni í vetur vegna meiðsla.

Arteta, sem er 33 ára gamall, hefur verið frá keppni síðan í nóvember vegna tognunar í kálfa. Hann sneri aftur á völlinn í leik með 21-árs liði Arsenal en þá meiddist hann á ökkla og er fyrir vikið ekki leikfær í dag þegar Arsenal mætir Reading í undanúrslitum bikarkeppninnar á Wembley.

„Það eina sem ég hugsa um er að verða leikfær á ný og reyna að standa mig inni á vellinum. Svo framarlega sem ég geri það, er ég viss um að ég held áfram í þessu félagi, miðað við þau góðu tengsl sem hef við alla og þá virðingu sem ég nýt hér," sagði Arteta, sem kom til Arsenal frá Everton sumarið 2011.

„Ef það tekst ekki hjá mér, þá verð ég ekki hér áfram því ég vil ekki vera einhversstaðar þar sem ég get ekki gert það sem ég tel mig geta. Þegar allt verður komið í lag í maímánuði munum við setjast niður og þá verðum við bara fimm mínútur að ganga frá samningi," sagði Mikel Arteta við ESPN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert