Höfðum lykilmenn þeirra í vasanum

José Mourinho virðist á þessari mynd vera að blanda sér …
José Mourinho virðist á þessari mynd vera að blanda sér í baráttu Antonio Valencia og Cesc Fabregas um boltann! AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að sínir menn hafi haft lykilmenn Manchester United algjörlega í vasanum í viðureign liðanna í gær þegar Chelsea vann geysilega mikilvægan sigur, 1:0, á Stamford Bridge og tók stórt skref í átt að enska meistaratitlinum.

Manchester United var miklu meira með boltann í leiknum og fékk fleiri marktækifæri en það  var hinsvegar Eden Hazard sem skoraði eina markið og stigin þrjú urðu eftir í London. Chelsea er nú með tíu stiga forskot á Arsenal á toppi deildarinnar þegar bæði lið eiga sex leiki eftir.

„Við lögðum leikinn upp á þennan hátt. Svona vildum við að hann spilaðist og reiknuðum alveg með því. Þetta var erfitt en ekki eins og þið gætuð haldið. Við hindruðum þá í að senda langar sendingar á Marouane Fellaini og sáum til þess að kantmennirnir þeirra gætu ekki snúið sér inn á völlinn og sent fyrir markið," sagði Mourinho við BBC.

„Þegar við vissum að Wayne Rooney myndi spila á miðjunni, gátum við stjórnað því hvort hann kæmist inn í vítateiginn. Við höfðum undirtökin í uppstilltum atriðum og gættum þess að fá ekki á okkur beinar aukaspyrnur því þeir eiga þrjá  sérfræðinga í þeim. Svo biðum við þess að andstæðingarnir gerðu mistök og við gætum refsað þeim með marki. Við létum þeirra mikilvægustu menn hverfa. Enginn sá þá í leiknum. Við vorum með þá í vasanum,“ sagði Mourinho.

Hann sagði að vissulega væri sitt lið næstum því orðið meistari - en gæti ekki fagnað því ennþá. „Við fögnum ekki. Fótboltinn snýst ekki um „næstum því“ eða „ef.“ Hann snýst um stærðfræði. Þegar titillinn er í höfn, er hann í höfn, og fram að þeirri stundu bíðum við með einhver fagnaðarlæti. Við fögnuðum hinsvegar í leikslok vegna þess að við sigruðum eitt af stærstu knattspyrnufélögum heims. Við fögnuðum vegna þess að þeir höfðu allt til staðar til að vinna leikinn, og við náðum þessum úrslitum vegna alls þess undirbúnings sem við lögðum í leikinn alla vikuna,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert