Man. Utd hringdi vegna Depay

Memphis Depay fyrir miðju, ásamt Luuk de Jong og Georgino …
Memphis Depay fyrir miðju, ásamt Luuk de Jong og Georgino Wijnaldum, fagnar inn í klefa eftir að PSV varð hollenskur meistar í gær. AFP

Talsmaður PSV Eindhoven staðfesti það við hollenska sjónvarpsstöð að hringt hefði verið frá Manchester United til að spyrjast fyrir um hollenska kantmanninn Memphis Depay.

Depay, sem er 21 árs, hefur leikið afar vel með PSV í vetur og verið orðaður við United, Liverpool og Tottenham. Eftir að hollenski meistaratitillinn var í höfn með 4:1-sigri á Heerenveen í gær greindi Marcel Brands, tæknistjóri PSV, frá því að United hefði hringt.

„Við fengum símtal frá þeim vegna hans. En það hafa engar viðræður átt sér stað. Það eru nokkur félög í fremstu röð sem hafa sýnt áhuga,“ sagði Brands.

Tottenham mun hafa boðið 14,5 milljónir punda í Depay, sem hefur skorað 20 mörk í vetur, en sú upphæð dugar engan veginn, að sögn Brands.

„Það þarf mun hærra boð en það sem Tottenham kom með. Hann verður mjög dýr,“ sagði Brands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert