Pellegrini er lélegur knattspyrnustjóri

Yaya Toure.
Yaya Toure. AFP

Framtíð Yaya Toure, miðjumanns Manchester City, er enn í óvissu en hann hefur verið nokkuð gagnrýndur fyrir frammistöðu sína á tímabilinu. Orð umboðsmanns hans eru líklega ekki til að auka á líkurnar á því að hann verði áfram hjá þeim ljósbláu.

Umboðsmaður Toure, Dimitri Seluk, hjólaði í Manuel Pellegrini, stjóra City, í enskum fjölmiðum og hefur lýst honum sem ágætum þjálfara en lélegum knattspyrnustjóra. Honum er þó enn verr við stjórnarmenn félagsins.

„Sumir hjá City eru að reyna að kenna Yaya um slæmt gengi liðsins síðustu vikur, en þeir einstaklingar eru ekki að axla ábyrgð á eigin gjörðum. Þar er ég að tala um stjórnarmenn sem kaupa leikmenn fyrir himinháar fjárhæðir en láta þá síðan á bekkinn,“ sagði Seluk.

„Menn eins og Stevan Jovetic voru keyptir fyrir mikið fé en svo var hann ekki í hópi liðsins í Meistaradeildinni. Ég vorkenni Pellegrini, hann er ágætur þjálfari en lélegur knattspyrnustjóri. Mun Yaya fara í sumar? Tveir stærstu klúbbar heims hafa þegar haft samband hvort hann sé laus og ef City er tilbúið að selja munu aðrir tíu hringja í mig um leið,“ sagði Seluk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert