Reiðubúnir að fórna lífinu

Alexis Sánchez skorar sigurmark Arsenal gegn Reading.
Alexis Sánchez skorar sigurmark Arsenal gegn Reading. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði að leikmenn Reading hefðu verið hreint ótrúlegir í bikarslag liðanna á Wembley í gær en hans menn þurftu framlengingu til að sigrast á 1. deildar liðinu og tryggja sér þátttökurétt í úrslitaleiknum í vor.

Arsenal vann 2:1 eftir framlengingu þar sem Alexis Sánchez skoraði bæði mörkin, og sigurmarkið af talsverðri heppni þar sem Adam Federici markvörður Reading missti boltann á milli fótanna og innfyrir marklínuna.

„Leikmenn Reading voru hreinlega reiðubúnir til að fórna lífinu á vellinum til að koma liðinu í bikarúrslitaleikinn. Þeir voru allt öðruvísi stemmdir en í þeim leikjum sem við höfðum skoðað hjá þeim af myndböndum. Þetta var þeirra stóri leikur lífsins, og þeir gáfust ekki upp fyrr en hann var flautaður af. Við getum ekki annað en óskað þeim til hamingju með þeirra frammistöðu,“ sagði Wenger við BBC.

Hann sagði að auðvitað yrði stefnt á sigur í úrslitaleiknum sem verður gegn Liverpool eða Aston Villa. „Þegar maður kemst í úrslitaleik vill maður að sjálfsögðu sigra. Við munum búa okkur vel undir hann, enda deildina eins vel og við getum, komum aftur hingað á Wembley og leggjum allt í sölurnar til að sigra,“ sagði Wenger en lið hans er ríkjandi bikarmeistari og gæti orðið aðeins áttunda liðið í rúmlega 140 ára sögu keppninnar til að vinna hana tvö ár í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert