Töpuðu besta leik vetrarins

Louis van Gaal fylgist með sínum mönnum á Stamford Bridge …
Louis van Gaal fylgist með sínum mönnum á Stamford Bridge í gær. AFP

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, var ánægður með frammistöðu sinna manna á Stamford Bridge í gær, enda þótt lið hans hefði þar beðið lægri hlut fyrir Chelsea, 1:0, í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég er ekki svekktur, ég er mjög stoltur af mínu liði. Við spiluðum besta leikinn okkar á keppnistímabilinu en stundum tapar maður fótboltaleik þrátt fyrir að vera betri aðilinn,“ sagði van Gaal við fréttamenn.

„Við erum að byggja upp lið en þið sjáið að það er stöðugt að bæta sig, frá viku til viku. Það er ótrúlegt hvernig við spiluðum í þessum leik og það er ótrúlegt að við skyldum tapa leiknum 1:0, en svona er fótboltinn.

Stuðningsmenn okkar eru vonsviknir yfir því að við skyldum tapa og ég er vonsvikinn yfir því að við skyldum tapa. Það var mikil synd vegna þess hve vel við lékum. Mínir leikmenn eru afar vonsviknir, og ég líka. En ég horfi til þess að við erum stöðugt að bæta okkar leik.

Að við skyldum geta spilað svona gegn Chelsea á útivelli, og haft þessa yfirburði, þá er ég mjög ánægður. En um leið afar vonsvikinn. Þannig eru tilfinningar mínar á tvo vegu,“ sagði van Gaal.

Þegar hann var spurður um atvikið undir lokin þar sem Ander Herrera fékk gula spjaldið fyrir að reyna að fiska vítaspyrnu svaraði Hollendingurinn: „Í mínum augum var þetta brot. Það er mín skoðun. En dómarinn ræður. Þegar hann flautar er víti, annars ekki. Ég er ekki sammála honum en get ekki haft áhrif á hann,“ sagði van Gaal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert