Verður Chelsea meistari 29. apríl?

Leikmenn Chelsea höfðu ástæðu til að fagna vel í leikslok …
Leikmenn Chelsea höfðu ástæðu til að fagna vel í leikslok gegn Manchester United í gær enda mikilvægur sigur í höfn og meistaratitillinn í augsýn. AFP

Eftir sigurinn á Manchester United í gær, 1:0 á Stamford Bridge, á Chelsea möguleika á að tryggja sér enska meistaratitilinn áður en aprílmánuður er liðinn og gæti verið með hann í höfn 25 dögum áður en keppni lýkur í úrvalsdeildinni.

Chelsea er með 76 stig á toppnum en Arsenal er með 66 stig í öðru sæti. Liðin mætast í næstu umferð, sunnudaginn 26. apríl, á Emirates-leikvanginum.

Takist Chelsea að vinna leikinn, nægir liðinu einn sigur í viðbót og næsti leikur er gegn Leicester þremur dögum síðar, 29. apríl, á útivelli en það er frestuð viðureign liðanna. 

Vinni José Mourinho og hans menn þessa tvo leiki er enski meistaratitillinn sem sagt í höfn. Þá á liðið enn eftir fjóra leiki en þeir eru gegn Crystal Palace og Liverpool á heimavelli, WBA á útivelli og Sunderland á heimavelli.

Fari svo að Arsenal vinni Chelsea næsta sunnudag munu sjö stig skilja liðin að þegar bæði eiga fimm leikjum ólokið. Þá þyrfti Chelsea níu stig í viðbót til að gulltryggja titilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert