Halda að ég geti skorað mörkin

John Carver kallar á sína menn í Newcastle.
John Carver kallar á sína menn í Newcastle. AFP

John Carver, knattspyrnustjóri Newcastle, vill fá meiri vernd frá félaginu gagnvart framkomu stuðningsmanna þess sem létu hann hafa það óþvegið á meðan leikur liðsins við Swansea stóð yfir á laugardaginn.

Newcastle tapaði þar 2:3 á heimavelli, þar sem Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt mark fyrir Swansea og lagði annað upp, og beið þar með sinn sjöunda ósigur í röð. Nú er Newcastle aðeins fimm stigum frá fallsæti þegar fjórum umferðum er ólokið og liðið gæti því enn fallið.

„Ég ætla ekki að standa þarna og láta ausa yfir mig svívirðingum allan tímann. Félagið verður að gera eitthvað í málinu. Þeir virðast halda að ég geti skorað mörkin, komið í veg fyrir að mótherjarnir skori skallamörk og bjargað á marklínu. Það er ekki á mínu valdi,“ sagði Carver sem tók við liðinu á miðju tímabili þegar Alan Pardew fór til Crystal Palace.

Stuðningsmenn Newcastle höfðu uppi hávær mótmæli fyrir leikinn og meðan á honum stóð, og þau beindust líka mjög að Mike Ashley, eiganda félagsins, en þeir telja að Ashley hafi sýnt lítinn metnað til að ná lengra með liðið.

Fjárhagsstaðan er góð en stuðningsmenn vilja að hún endurspeglist í kaupum á sterkari leikmönnum. Á 34. mínútu leiksins lyftu þeir rauðum miðum, merktum: „Burt með Ashley“ en 34 var táknrænt fyrir þann fjölda milljóna punda sem félagið skilaði í hagnað á síðasta fjárhagsári.

Áhorfendur á leik Newcastle og Swansea voru 46.884, sem er minnsta aðsókn á St. James' Park í vetur en völlurinn er yfirleitt fullur og rúmar ríflega 52 þúsund manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert