„Eiður og Heskey björguðu okkur

Eiður Smári Guðjohnsen fagnar marki.
Eiður Smári Guðjohnsen fagnar marki. Ljósmynd/bwfc.com

Jan Mjällby, aðstoðarþjálfari Bolton Wanderers í ensku 1. deildinni, hrósar Eiði Smára Guðjohnsen, leikmanni liðsins, í hástert fyrir frammistöðuna á tímabilinu.

Eiður hefur verið afar mikilvægur liði Bolton í vetur, eða frá því hann kom til liðsins í desember á frjálsri sölu.

Á sama tíma fékk Neil Lennon, knattspyrnustjóri liðsins, Emile Heskey, en þá ráku eflaust margir upp stór augu að liðið skildi fá tvo leikmenn á seinni árum ferilsins til þess að rífa upp gengi þess.

Eiður spilaði 21 leik á tímabilinu, skoraði fimm mörk og gerði tvær stoðsendingar, en frammistaða hans vakti mikla athygli á Englandi og skilaði honum um leið aftur í íslenska landsliðshópinn.

„Eiður og Emile hafa verið frábærir á tímabilinu. Það er gott fyrir ungu leikmennina að sjá þessa leikmenn í nærmynd, því þeir æfa svo vel og eru fagmannlegir. Þetta hjálpar þeim klárlega að blómstra,“ sagði Mjällby.

„Þetta er samt svolítið neikvætt á sama tíma. Þetta sýnir að við höfum ekki átt frábært tímabil þegar liðið þarf að reiða sig á Emile og Eið, sem hafa líklega verið okkar bestu leikmenn í vetur."

„Við erum samt heppnir að hafa þá, því án þeirra þá værum við ekki öruggir,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert