Stoke skoraði sex í lokaleik Gerrard - Hull féll

Leikmenn Liverpool voru arfaslakir á Britannia leikvanginum í dag.
Leikmenn Liverpool voru arfaslakir á Britannia leikvanginum í dag. AFP

Lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar fór fram í dag, en Hull City féll niður um deild á meðan Liverpool var niðurlægt af Stoke City.

Hull City féll niður í ensku fyrstu deildina eftir hetjulega baráttu. Liðið gerði markalaust jafntefli við Manchester United á KC leikvanginum í dag, en það var ekki nóg. Newcastle United vann West Ham United á sama tíma 2:0 þar sem Moussa Sissoko og Jonas Gutierrez skoruðu mörk heimamanna og hélt því Newcastle sæti sínu í deildinni á kostnað Hull.

Theo Walcott gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu fyrir Arsenal í 4:1 sigri á WBA. Walcott skoraði þrennuna í fyrri hálfleik, en auk þess gerði Jack Wilshere eitt mark fyrir heimamenn. Gareth McAuley skoraði mark gestanna.

Stoke City slátraði Liverpool 6:1 á Britannia leikvanginum. Mame Biram Diouf gerði fyrstu tvö mörk Stoke áður en Jonathan Walters bætti við þriðja markinu. Charlie Adam átti heiðurinn að fjórða markinu og þá skoraði Steven N'Zonzi fimmta markið undir lok fyrri hálfleiks.

Steven Gerrard minnkaði muninn fyrir Liverpool í sínum síðasta leik fyrir félagið, en hann vill eflaust gleyma þessum degi sem allra fyrst því Peter Crouch, fyrrum leikmaður Liverpool og núverandi leikmaður Stoke, eyðilagði daginn gjörsamlega fyrir Gerrard er hann skoraði sjötta mark Stoke og lokatölur því 6:1.

Chelsea lagði Sunderland 3:1 á Stamford Bridge þar sem bláklædda liðið fagnaði enska deildarmeistaratitlinum. Steven Fletcher kom Sunderland yfir áður en Diego Costa jafnaði metin úr vítaspyrnu. Loic Remy var svo hetja Chelsea og gerði tvö mörk í síðari hálfleiknum.

Leicester City vann QPR 5:1, Crystal Palace vann Swansea City 1:0, Tottenham tók Everton 1:0 og þá vann Manchester City lið Southampton 2:0 og þá vann Burnley lið Aston Villa 1:0.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Leikjum dagsins er lokið! Hull City er fallið eftir hetjulega baráttu. Jonas Gutierrez var maðurinn á bakvið sigur Newcastle í dag sem hélt þeim uppi. Leikmaður sem hefur staðið í ströngu og þurft að glíma við krabbamein, en þvílík endurkoma hjá honum.

Steven Gerrard var niðurlægður í síðasta leik sínum fyrir Liverpool þar sem Stoke City sigraði 6:1 á Britannia leikvanginum. Chelsea vann góðan sigur á Sunderland og Manchester City lagði þá Southampton 2:0. Theo Walcott gerði þrennu fyrir Arsenal í 4:1 sigri. Magnaðri lokaumferð er lokið.

Takk fyrir í dag!

88. MARK! Chelsea 3:1 Sunderland - Loic Remy að bæta við öðru. Chelsea að tryggja sér sigur hérna undir lokin.

86. MARK! Leicester City 5:1 QPR - Andrej Kramaric að skora fimmta mark Leicester. Það eru flestir í bjór á heimavelli Leicester, enda ákvað eigandinn að bjóða öllum stuðningsmönnum liðsins upp á einn frían bjór á leiknum.

86. MARK! Stoke City 6:1 Liverpool - Peter Crouch að skora gegn sínum gömlu félögum. Hvar endar þetta? 

85. MARK! Manchester City 2:0 Southampton - Sergio Aguero að skora annað mark Manchester City. Hann skallaði knöttinn í netið og City að ná í þægilegan sigur.

85. MARK! Newcastle United 2:0 West Ham United - Jonas Gutierrez er að gulltryggja sæti Newcastle í úrvalsdeildinni. Það er nokkuð ljóst að Hull er á leið niður.

80. Eins og staðan er núna þá er Newcastle uppi. Hull þarf að treysta á það að West Ham jafni gegn Newcastle og um leið þarf Hull að skora gegn Manchester United. Annað eins hefur nú gerst í lokaumferðinni í þessari mögnuðu deild.

77. RAUTT! Hull City 0:0 Manchester United - Marouane Fellaini fær rautt fyrir að traðka á Paul McShane. Þetta var algerlega óþarfi hjá belgíska landsliðsmanninum. United komið með Meistaradeildarsæti og allir í góðum gír, en Fellaini er ekki að anda að sér sama andrúmslofti greinilega.

75. Hull City 0:0 Manchester United - Abel Hernandez eitthvað orðinn pirraður og kýlir Phil Jones í magann en fær ekki einu sinni spjald fyrir. Menn í Hull að finna fyrir stressinu, enda átakanlegt að falla.

70. MARK! Chelsea 2:1 Sunderland - Loic Remy að skora fyrir Chelsea. Auðvitað vilja heimamenn fagna sigri á svona degi.

70. MARK! Stoke City 5:1 Liverpool - Steven Gerrard í kveðjuleiknum! Honum tókst þó að skora. Ég veit ekki hversu mikla þýðingu þetta mark hefur, en hver veit nema honum takist að skora annað.

58. MARK! Leicester City 4:1 QPR - Charlie Austin að klóra í bakkann fyrir QPR. Hann fer sennilega frá félaginu í sumar og því fínt að skora í lokaumferðinni til þess að auka áhuga.

57. MARK! Crystal Palace 1:0 Swansea City - Marouane Chamakh að skora fyrsta markið í þessum leik og Palace er komið yfir.

57. MARK! Arsenal 4:1 WBA - Gareth McAuley að minna muninn. Skorar með skalla!

54. MARK! Newcastle United 1:0 West Ham - Moussa Sissoko að koma Newcastle yfir. Mark sem gæti reynst mikilvægt í fallbaráttunni.

52. MARK! Leicester City 4:0 QPR - Esteban Cambiasso! Leicester er að slátra QPR hérna í lokaumferðinni. Það er aldeilis skorað í dag.

51. MARK! Leicester City 3:0 QPR - Jose Ulloa að bæta við þriðja markinu fyrir Leicester. 

46. Leikirnir eru komnir af stað. Fáum við að sjá eitthvað krassandi í seinni? Ég vona það.

Hálfleikur: Það er svo margt furðulegt að gerast í lokaumferðinni að maður veit hreinlega ekki hvað er að gerast. Arsenal er að kjöldraga WBA þar sem Theo Walcott er kominn með þrennu og þá er Stoke að rúlla yfir Liverpool, 5:0. Allt í járnum í leik Chelsea og Sunderland.

45. MARK! Leicester City 2:0 QPR - Marc Albrighton að bæta við öðru marki fyrir Leicester. Nokkuð þægilegt á þeim bænum.

45. MARK! Stoke City 5:0 Liverpool - Steven N'Zonzi! Hvað er eiginlega hægt að segja við þessu? Liverpool er í gríninu. 5-0 í hálfleik.

41. MARK! Stoke City 4:0 Liverpool - Charlie Adam að fara illa með sína gömlu félaga og staðan er 4-0. Steven Gerrard hlýtur að hrista hausinn yfir þessu. Er ekki flugið hans til Los Angeles örugglega í hálfleik?

40. Það er fínt að koma inná það að Didier Drogba fór af velli eftir hálftíma leik hjá Chelsea, en þetta var hans síðasti leikur fyrir félagið. Angel Di Maria fór þá meiddur af velli í liði Manchester United en í hans stað kom Adnan Januzaj.

37. MARK! Arsenal 4:0 WBA - Theo Walcott er kominn með þrennu! Hann byrjar fremstur og gerir þrennu, þetta er eftir bókinni. Hann er sennilega búinn að tryggja sér byrjunarliðssætið í úrslitum bikarsins núna.

36. MARK! Chelsea 1:1 Sunderland - Diego Costa skorar úr vítaspyrnu. Juan Cuadrado er felldur innan teigs og Costa tekur vítið og skorar af öryggi. Veislan kannski ekki ónýt eftir allt saman?

31. MARK! Manchester City 1:0 Southampton - Frank Lampard að skora gegn Southampton. 

30. MARK! Stoke City 3:0 Liverpool - Jonathan Walters að henda í þriðja markið. Þetta er neyðarlegt hjá Liverpool!

26. MARK! Chelsea 0:1 Sunderland - Steven Fletcher ætlar að rústa veislunni hjá Chelsea í dag að mér sýnist. Hann skorar af stuttu færi.

26. MARK! Stoke City 2:0 Liverpool - Mame Biram Diouf aftur! Marko Arnautovic fer illa með Emre Can áður en hann kemur boltanum fyrir á Diouf sem kláraði færið örugglega.

24. MARK! Everton 0:1 Tottenham Hotspur - Harry Kane, hver annar? Eric Dier kom með fyrirgjöf sem rataði á kollinn á Kane sem skoraði. 31 mark hans á tímabilinu!

23. MARK! Stoke City 1:0 Liverpool - Mame Biram Diouf að koma Stoke yfir. Simon Mignolet varði skot Charlie Adam, en boltinn datt fyrir Diouf sem gat ekki annað en komið boltanum í netið.

19. Hull City 0:0 Manchester United - Hull er búið skora tvö mörk, en bæði dæmd ógild. Paul McShane kemur boltanum í netið en dæmt af og stuttu síðar er það Dame N'Doye sem skorar eftir fyrirgjöf Stephen Quinn en aftur flaggar línuvörðurinn. Tvær réttar ákvarðanir að mér sýnist!

17. MARK! Arsenal 3:0 WBA - Jack Wilshere að bæta við þriðja markinu. Það er engin leið fyrir WBA að stöðva þessa vél. Skot af 25 metrunum eftir sendingu frá Mesut Özil. Wilshere er svo sannarlega að minna á sig þarna!

16. MARK! Leicester City 1:0 QPR - Jamie Vardy að koma heimamönnum yfir gegn QPR sem er nú þegar fallið.

14. MARK! Arsenal 2:0 WBA - Theo Walcott er aftur á ferðinni fyrir Arsenal. Jack Wilshere og Mesut Özil lögðu þetta upp fyrir Walcott sem fagnaði á viðeigandi hátt. Hann er svo sannarlega að senda Arsene Wenger, stjóra liðsins, skilaboð um að hann eigi að byrja í úrslitaleik FA bikarsins.

6. MARK! Aston Villa 0:1 Burnley - Danny Ings! Hann er að koma gestunum yfir. Hann skorar með skalla í sennilega sínum síðasta leik fyrir félagið.

4. MARK! Arsenal 1:0 WBA - Theo Walcott er að koma Arsenal yfir. Skemmtilegar hreyfingar hjá Walcott sem fékk boltann hægra megin við teiginn áður en hann lét vaða með utanfótarskoti.

4. Hull City 0:0 Manchester United - Wayne Rooney með hörkuskot sem fer í slá. Fín byrjun hjá gestunum, en það eru aðallega heimamenn sem eru undir pressu í dag. Hull má ekki tapa stigum, annars fellur liðið.

1. Leikirnir eru komnir af stað.

0. Það styttist í síðustu umferðina. Það má auðvitað búast við fjöri og nóg af mörkum!

0. Gylfi Þór Sigurðsson er ekki í leikmannahópnum hjá Swansea. Við Íslendingar fögnum því auðvitað, enda stutt í leik Íslands og Tékklands í undankeppni Evrópumótsins.

0. David De Gea er ekki í marki Manchester United í dag vegna meiðsla og þá er Radamel Falcao ekki heldur í hópnum, en hann mun yfirgefa félagið í sumar eftir að hafa verið á láni hjá liðinu frá AS Monaco.

0. Undarlegir hlutir í byrjunarliði Liverpool. Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, er miðvallarleikmenn á vellinum, en það eru þeir Lucas Leiva, Joe Allen, Steven Gerrard og Jordan Henderson. Það er ekki einn framherji í byrjunarliðinu!

0. Þá eru byrjunarliðin komin í hús. Það má nálgast þau hér fyrir neðan.

0. Byrjunarliðin úr helstu leikjum birtast hér innan skamms.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Liverpool: Mignolet, Can, Skrtel, Sakho, Moreno, Lucas, Allen, Henderson, Gerrard, Lallana, Coutinho.

Stoke City: Begovic, Pieters, Cameron, Shawcross, Muniesa, N'Zonzi, Adam, Whelan, Arnautovic, Diouf, Walters.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Hull City: Harper, Dawson, McShane, Chester, Meyler, Brady, Huddlestone, Quinn, Elmohamady, N'Doye, Jelavic.

Manchester United: Valdes, Valencia, Smalling, Jones, Rojo, Blind, Herrera, Di Maria, Mata, Young, Rooney.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Manchester City: Hart; Zabaleta, Demichelis, Mangala, Kolarov; Fernandinho, Milner, Lampard, Toure, Silva; Aguero.

Southampton: K. Davis, Clyne, Fonte, Alderweireld, Bertrand, Wanyama, S. Davis, Djuričić, Mané, Long, Pellè.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Arsenal: Ospina, Bellerin, Gabriel, Mertesacker, Gibbs; Coquelin, Cazorla, Wilshere, Ozil, Sanchez, Walcott.

WBA: Myhill, Dawson, McAuley, Olsson, Lescott, Morrison, Yacob, Fletcher, McManaman, Berahino, Brunt.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Chelsea: Cech; Ivanovic, Cahill, Terry, Azpilicueta; Mikel, Matic; Cuadrado, Willian, Hazard; Drogba.

Sunderland: Mannone; Jones, O’Shea, Coates, van Aanholt; Larsson, Rodwell, Johnson; Fletcher, Wickham, Defoe.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Everton: Howard; Coleman, Stones, Jagielka, Galloway; McCarthy, Barry, Mirallas, Barkley, Osman; Lukaku.

Tottenham Hotspur: Lloris; Dier, Vertonghen, Fazio, Bentaleb; Mason, Dembele; Chadli, Eriksen, Lamela; Kane.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Crystal Palace: Hennessey; Ward, Dann, Hangeland, Souare; Zaha, Jedinak, McArthur, Bolasie; Puncheon; Chamakh.

Swansea City: Fabianski; Naughton, Fernandez, Bartley, Richards; Britton, Cork; Emnes, Dyer, Montero; Gomis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert