Hættir og hjólar yfir Bandaríkin

Thomas Sörensen á Mallorca.
Thomas Sörensen á Mallorca. Ljósmynd/Twitter

Danski markvörðurinn Thomas Sörensen er einn þriggja leikmanna sem enska knattspyrnufélagið Stoke City hefur leyst undan samningi en þetta var tilkynnt í morgun.

Hinir eru hondúrski miðjumaðurinn Wilson Palacios og varnarmaðurinn Andy Wilkinson.

Sörensen, sem er 39 ára gamall, ætlar að leggja skóna á hilluna og halda upp á tímamótin í sínu lífi með sérstökum hætti.

„Ég ákvað síðasta sumar, þegar mitt síðasta tímabil með Stoke City var að hefjast, að þetta yrði rétti tíminn á mínum ferli til að gefa eitthvað af mér. Ég ætla að hjóla 4.000 mílur þvert yfir Bandaríkin til þess að styðja veik börn og um leið til að upplifa gamlan draum," skrifaði Sörensen á Twitter fyrir nokku en hann er nú við hjólreiðaæfingar á Miðjarðarhafseynni Mallorca.

Sörensen lék 101 landsleik fyrir Danmörku á árunum 1999 til 2012. Hann spilaði jafnframt 409 leiki í ensku úrvalsdeildinni með Sunderland, Aston Villa og Stoke.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert