Gylfi ánægður með stuðninginn

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með félögum sínum í Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með félögum sínum í Swansea. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson og samherjar hans í Swansea City eru á heimleið frá Þýskalandi í dag en í gær léku þeir seinni leik sinn af tveimur í æfingaferðinni þangað.

Swansea vann þá 2:1 sigur á 1860 München en hafði áður gert jafntefli við Borussia Mönchengladbach. Bafatimbi Gomis og Jack Cork skoruðu mörkin fyrir Swansea. Þeir Gomis og Gylfi voru í hópi ellefu leikmanna sem var skipt inná þegar hálftími var eftir af leiknum.

Gylfi lýsti yfir mikilli ánægju með stuðningsmenn Swansea sem fjölmenntu til Þýskalands til að fylgjast með liðinu í þessum leikjum.

„Þeir voru frábærir í þessari ferð. Hún var skipulögð með stuttum fyrirvara en samt fjölmenntu þeir hingað til að fylgjast með okkur og styðja okkur í leikjunum sem var stórkostlegt. Það sýnir hve miklu þeir eru tilbúnir til að fórna fyrir stuðning sinn við félagið," sagði Gylfi á vef Swansea.

Hann var ánægður með frammistöðu nýja framherjans Eder, sem kom til félagsins frá Braga í Portúgal í sumar. „Eder hefur fallið vel inn í okkar lið, hann er hávaxinn strákur en líka sterkur og snöggur. Vonandi á hann eftir að skora talsvert af mörkum og ég er viss um að hann á eftir að nýtast okkur vel í vetur," sagði Gylfi.

Næstu leikir Swansea á undirbúningstímabilinu eru um næstu helgi. Þá spilar liðið við gamla félagið hans Gylfa, Reading, og einnig við Nottingham Forest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert