Varnarsinnuð lið verðskulda að vinna

José Mourinho ræðir við fréttamenn.
José Mourinho ræðir við fréttamenn. AFP

José Mourinho var að vonum ekki ánægður með að tapa fyrir Arsene Wenger í fyrsta skipti í fjórtán leikjum þar sem þeir hafa verið við stjórnvölinn hjá Chelsea og Arsenal. Wenger og hans menn unnu leik liðanna um Samfélagsskjöldinn á Wembley í dag, 1:0.

Mourinho gagnrýndi leikaðferð Arsenal á fréttamannafundi eftir leikinn. 

„Þeir skoruðu eitt mark og verðskulduðu sigurinn. Vanalega segið þið að lið sem er varnarsinnað og verst mjög vel eigi ekki skilið að vinna. En ég er á annarri skoðun en þið. Ég tel að lið sem verst mjög vel, skilur alla sína leikfræði eftir í búningsklefanum, skiptir um hugarfar, spilar allan seinni hálfleikinn með níu menn rétt fyrir framan eigin vítateig, fær ekki á sig mark og skorar eitt mark sjálft - það verðskuldar að vinna. Svona er fótboltinn. Þetta er mjög gott leikskipulag. Ég óska þeim til hamingju," sagði Mourinho og menn þóttust greina hæðnistón í málrómnum.

Hann vildi mest lítið gera úr því að hafa loksins tapað fyrir Wenger, en þeir tókust ekki í hendur í leikslok frekar en venjulega og Mourinho kastaði silfurmedalíunni sinni til ungs áhorfanda.

„Ég var aldrei með nein sálfræðileg undirtök. Það var ekki eðlilegt að þetta hefði þróast eins og það gerði og þessvegna velti ég mér aldrei uppúr því. Ég hef alltaf horft á hvern einstakan leik útaf fyrir sig, og ekki tengt hann við fyrri leiki gegn sama liði. Þrettán leikir er heil eilífð. Hjá mér hefur þetta aldrei snúist um að vinna einhvern ákveðinn og tapa fyrir einhverjum öðrum," sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert