Deildin á að hefjast þegar glugganum er lokað

Tony Pulis.
Tony Pulis. AFP

Tony Pulis, knattspyrnustjóri West Brom í ensku úrvalsdeildinni, vill að breytingar verði gerðar á fyrirkomulaginu þannig að deildarkeppnin hefjist ekki fyrr en búið er að loka félagaskiptaglugganum.

Félög á Englandi hafa til 1. september til að kaupa og selja leikmenn, en deildin sjálf hófst um síðustu helgi. Pulis telur þetta hafa truflandi áhrif á félög í upphafi tímabils þegar staða leikmanna er ekki á hreinu.

„Mér finnst að glugginn ætti að loka og síðan mætti tímabilið hefjast. Þú ert búinn að spila fjóra leiki þegar þú ert enn að brasa í leikmannamálum og hafa áhyggjur hingað og þangað þegar þú ættir að vera með fulla einbeitingu á liðinu þínu,“ segir Pulis en telur sum félög þar hafa forskot.

„Fyrir sum félög er þetta auðvelt því þau hafa peningana, en þetta er meiri vinna fyrir flest þar fyrir neðan. Mér finnst að glugginn ætti að loka á föstudegi og svo hefjist deildin á laugardegi þar á eftir,“ segir Pulis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert