Hliðarnar tvær á „De Gea-peningnum“

David de Gea var nánast búinn að pakka og fluttur …
David de Gea var nánast búinn að pakka og fluttur aftur til Madridar en ekkert varð af vistaskiptunum að þessu sinni. AFP

Manchester United segist ekki bera ábyrgð á því að ekki hafi tekist að ganga frá sölu á spænska markverðinum David de Gea til Real Madrid áður en lokað var fyrir félagaskipti á Spáni kl. 22 í gærkvöld.

Allt leit út fyrir að De Gea yrði markvörður Real Madrid enda virðist það eindreginn vilji hans og félögin virtust hafa náð samkomulagi, sem fól meðal annars í sér að Keylor Navas færi til United frá Real, en það var ekki í tæka tíð. De Gea verður því áfram hjá United en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.

Óhætt er að segja að útskýringar félaganna tveggja á því hvað fór úrskeiðis séu ólíkar. BBC tók saman atburðarás gærkvöldsins frá sjónarhóli beggja aðila, sem sjá má í lauslegri þýðingu hér að neðan. Búið er að breyta tímasetningum í íslenskan tíma, en lokað var fyrir félagaskipti á Spáni kl. 22 að íslenskum tíma.

Útskýringar Real Madrid:

  • United gaf ekki kost á samningaviðræðum um De Gea fyrr en á mánudagsmorgun.
  • Real sendi United samningana kl. 11.39. United svaraði átta klukkustundum síðar (19.43) og hafði gert minni háttar breytingar, sem Real samþykkti strax.
  • Real sendi United samningana kl. 21.32 og beið þess að fá lokaskjölin, undirrituð af United.
  • United skráði öll smáatriði samningsins kl. 22 og sendi strax til Real Madrid. Real fékk skjölin kl. 22.02 og reyndi að koma þeim í gegnum félagaskiptakerfi FIFA en það var lokað.

Útskýringar Man. Utd:

  • United sóttist ekki eftir því að hefja viðræður við Real um söluna á De Gea. Ekkert tilboð barst fyrr en á mánudag.
  • United sendi félagaskiptaskjöl vegna beggja leikmanna (Navas og De Gea) til Real kl. 19.42.
  • Real sendi skjölin varðandi De Gea til baka án undirskriftasíðunnar kl. 21.32. Um kl. 21.40 áttu sér stað miklar breytingar sem ollu óvissu varðandi samningana.
  • Það var ekki fyrr en 21.55 sem skjöl bárust frá Real til að ljúka samningnum við De Gea. Kl. 21.58 var samningurinn sendur aftur tilbaka frá United, og í gegnum félagaskiptakerfi FIFA án vandræða, áður en glugginn lokaðist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert