Með allt annað álit á Mourinho

Pedro fagnar marki með Chelsea.
Pedro fagnar marki með Chelsea. AFP

Spænski kantmaðurinn Pedro segir að það hafi ekki verið vegna knattspyrnustjórans Louis van Gaal sem hann endaði á því að fara til Chelsea í stað Manchester United nú í ágúst.

Heimildir ESPN hermdu að Pedro hefði skipt um skoðun eftir að hafa rætt við fyrrverandi liðsfélaga sína hjá Barcelona, Cesc Fabregas og Victor Valdés, og valið Chelsea fram yfir United. Þeir hafi ekki borið van Gaal góða söguna. Pedro viðurkennir að honum finnist ósanngjarnt hvernig Van Gaal hafi komið fram við Valdés, sem hollenski stjórinn tilkynnti í júlí að ætti sér enga framtíð hjá United, en það réði ekki úrslitum:

„Nei. Það er satt að ég er ekki ánægður með þá meðferð sem félagar mínir hafa fengið, sérstaklega Victor, sem er til fyrirmyndar sem liðsfélagi og atvinnumaður. Ég tel það ekki sanngjarnt en þetta hafði ekki áhrif á mína ákvörðun,“ sagði Pedro, sem segist hafa fengið allt annað álit á sínum nýja knattspyrnustjóra, Jose Mourinho:

„Mourinho er mjög ólíkur því sem maður heldur, þegar maður hittir hann í eigin persónu. Ég hef fengið annað álit á honum,“ sagði Pedro.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert