18 ára með sigurmark City

Iheanacho skoraði sigurmark Manchester City í dag.
Iheanacho skoraði sigurmark Manchester City í dag. AFP

Fimm leikjum var að ljúka í fimmtu umferð ensku úrvalsdeildarinnar, en Manchester City og Arsenal náðu í sigra.

Arsenal sigraði Stoke City 2:0 á Emirates leikvanginum. Arsenal var með mikla yfirburði í leiknum og í raun ótrúlegt að liðið hafi ekki skorað fleiri mörk. Theo Walcott kom Arsenal á bragðið á 31. mínútu með laglegu marki eftir langa sendingu frá Mesut Özil áður en Olivier Giroud bætti við öðru eftir að hafa komið inná sem varamaður seint í síðari hálfleiknum.

Kelechi Iheanacho er nafn sem margir koma til með að muna í framtíðinni, en þessi 18 ára framherji tryggði Manchester City 1:0 sigur á Crystal Palace á Selhurst Park. Hann var ný kominn inná sem varamaður og skoraði í fyrstu snertingu. Man City því á toppnum með fullt hús stiga eftir fyrstu fimm umferðirnar.

Norwich vann þá Bournemouth 3:1 í nýliðaslag. Cameron Jerome kom Norwich á bragðið áður en Wesley Hoolahan bætti við öðru. Matt Jarvis skoraði svo þriðja markið áður en Steve Cook klóraði í bakkann.

WBA og Southampton gerðu markalaust jafntefli en vandræðagemsinn, Saido Berahino, kom inná sem varamaður á 55. mínútu leiksins.

Watford sigraði þá Swansea City 1:0. Odion Ighalo skoraði sigurmarkið um miðjan síðari hálfleik en Watford spilaði manni færri síðasta hálftímann er Valon Behrami fór í hættulega tæklingu á Andre Ayew.

Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Swansea en honum var skipt af velli á 71. mínútu leiksins.

Olivier Giroud skorar gegn Stoke í dag.
Olivier Giroud skorar gegn Stoke í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert