Stevie kenndi mér á grannaslagina

Lucas Leiva.
Lucas Leiva. Ljósmynd/Liverpool FC

Lucas Leiva, brasilíski miðjumaðurinn hjá Liverpool, segir að Steven Gerrard, fyrirliði liðsins til margra ára, hafi kennt sér hvernig ætti að nálgast nágrannaslagina við Everton. Liðin mætast í dag á Goodison Park í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu klukkan 12.30.

Lucas tekur þátt í sínum fjórtánda grannaslag við Everton en til þessa hefur Gerrard ávallt verið við hlið hans. Nú er hann hinsvegar farinn vestur um haf og spilar með LA Galaxy.

„Það sást alla vikuna fyrr leiki gegn Everton að Stevie var með öðruvísi tilfinningar en vanalega. Hann var einstaklega einbeittur og talaði ekki um neitt annað en grannaslaginn og að hann mætti ekki tapast. Þetta lærði ég af honum, og með tímanum hef ég áunnið mér þessa sömu tilfinningu," sagði Lucas á vef Liverpool.

„Ég veit hversu mikilvægur leikurinn er fyrir stuðningsmenn okkar, fyrir félagið og fyrir leikmennina. Ef við spilum eins og Stevie gerði um áraraðir í þessum leikjum, með hans ástríðu, þá eigum við sigurmöguleika. Þetta er alltaf sérstök vika og hann verður sjálfur spenntur fyrir leiknum sem áhorfandi," sagði Lucas, sem nú hefur leikið lengst allra núverandi leikmanna liðsins ásamt Martin Skrtel, og kveðst gera sér grein fyrir sinni ábyrgð gagnvart óreyndari leikmönnum.

„Ég reyni að hjálpa þeim á hverjum degi. Við Skrtel berum þá ábyrgð að sýna nýju leikmönnunum hversu miklu máli þessi leikur skiptir fyrir fólkið í borginni og hversu stórt félagið er," sagði Brasilíumaðurinn.

Everton mætir til leiks með 12 stig í 7. sæti deildarinnar en Liverpool er í 10. sæti með 11 stig. Everton kæmist í þriðja sætið með sigri, allavega um stundarsakir, og Liverpool gæti lyft sér upp í sjötta sætið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert