Toure óánægður með breska fjölmiðla

Yaya Toure þykir umfjöllun fjölmiðla um frammistöðu sína oft og …
Yaya Toure þykir umfjöllun fjölmiðla um frammistöðu sína oft og tíðum ósanngjarna. AFP

Yaya Toure, miðvallarleikmaður Manchester City, er ekki sáttur við umfjöllun fjölmiðla um frammistöðu sína.

Toure segir fjölmiðla trega í taumi í hrósi í sinn garð og mun iðnari við kolann þegar þeim finnst spilamennska hans gagnrýniverð. 

Toure ræðir þessi mál í viðtali við franska blaðið L'Equipe.

„Allir halda að ég sé ánægður. Ég hef unnið titla og þénað mikinn pening. Staðreyndin er hins vegar sú að ég er ekki fyllilega sáttur,“ segir Toure um líðan sína.

„Undanfarnar vikur hafa blaðamenn skrifað um nýtt upphaf hjá mér. Ég skil ekki alveg hvað þeir eru að fara í þeim efnum,“ segir Toure enn fremur.

„Manchester City endaði í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni, erfiðustu deild í heimi, á síðastliðnu keppnistímabili. Tímabilið þar á undan skoraði ég 26 mörk og það er ekkert minnst á það í umfjöllun fjölmiðla,“ segir Toure sem finnst hann augljóslega bera skarðan hlut frá borði í umfjöllun fjölmiðla.

„Á síðasta tímabili var ég gagnrýndur fyrir að skora ekki nógu mörg mörk fyrir Manchester City. Það tók enginn með í reikninginn að ég spilaði ég ekki með Manchester City í tvo mánuði vegna þess að ég var að spila með landsliðinu í Afríkukeppninni,“ segir Toure sem er ósáttur við gagnrýni á muni í markaskorun hans milli tímabila.

„Þú hlýtur að skilja að ég sé ekki á eitt sáttur við umfjöllun fjölmiðla um mig. Þegar ég spila illa eru breskir blaðamenn duglegir að setja mistök mín í sviðsljósið. Þegar ég spila svo vel þegja þeir aftur á móti þunnu hljóði. Þeir hafa alla tíð reynt að koma mér úr jafnvægi með umfjöllun sinni um mig,“ segir Toure sem telur sig augljóslega ekki njóta sannmælis hjá breskum blaðamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert