Yorke vill ólmur taka við Aston Villa

Dwight Yorke fagnaði tæplega hundrað mörkum í búningi Aston Villa.
Dwight Yorke fagnaði tæplega hundrað mörkum í búningi Aston Villa.

Dwight Yorke, fyrrverandi framherji Aston Villa og Manchester United, hefur mikinn áhuga á að taka við sem knattspyrnustjóri Aston Villa.

Villa er án stjóra eftir að Tim Sherwood var rekinn í gær. Leit stendur yfir að nýjum stjóra og eru Villa-menn sagðir í viðræðum við Rémi Garde, fyrrverandi stjóra Lyon í Frakklandi. Yorke, sem skoraði 97 mörk í 294 leikjum fyrir Villa, vill hins vegar fá tækifæri:

„Ungt fólk er tilbúið að láta að sér kveða sem knattspyrnustjórar og ég sé ekki af hverju ég ætti ekki að setja nafnið mitt í hattinn,“ sagði Yorke, sem er 43 ára gamall, við Talksport.

„Fólk mun segja að ég hafi enga reynslu en ég hef séð fólk með reynslu taka að sér svona starf og eiga í mestu vandræðum. Ég þekki þetta félag inn og út, hef skoðað leikmannahópinn vel, og veit að þarna er allt til staðar og nægur tími til að koma liðinu úr þeirri stöðu sem það er í,“ sagði Yorke, og bætti við:

„Þetta snýst um það að eigendurnir séu tilbúnir að gefa ungum og efnilegum stjóra tækifæri. Þegar maður skoðar stjórana í dag þá er þetta eins og hringekja. Þessi 30 ár sem ég hef verið í fótboltanum þá er þetta alltaf sama fólkið sem fær nýtt og nýtt starf. Af hverju fá ungir stjórar, með sína menntunargráður, ekki frekar tækifæri?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert