Wenger myndi taka Evrópudeildina alvarlega

Arsene Wenger
Arsene Wenger AFP

Sjálfsagt finnst stuðningsmönnum Arsenal full snemmt hjá sínum mönnum að velta fyrir sér Evrópudeildinni þegar enn eru tvær umferðir eftir af riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Evrópudeildina bar þó á góma þegar stjórinn Arsene Wenger ræddi við fjölmiðlafólk.

Arsenal tekur í kvöld á móti Dinamo Zagreb en fer til Grikklands og leikur þar gegn Olympiacos í síðustu umferð riðlakeppninnar. Verður það væntanlega úrslitaleikur um hvort liðið fylgir Bayern München upp úr riðlinum.

„Við myndum taka Evrópudeildina alvarlega en við erum þó ekki úr leik í Meistaradeildinni ennþá. Í Portúgal og á Spáni má finna dæmi þar sem lið hafa tekið þessa keppni alvarlega og unnið hana. Má þar nefna Benfica og Sevilla.“

Ensku félögin hafa ekki verið mjög hrifin af Evrópudeildinni og telja leiki á fimmtudagskvöldum koma sér illa fyrir þau í baráttunni heima fyrir. Wenger vill ekki gera of mikið úr því.

„Ég er á því að þetta vandamál hafi verið ýkt svolítið í Englandi vegna þess að við spilum stundum á miðvikudagskvöldum í Meistaradeildinni og á laugardegi í ensku deildinni. Ég sé ekki mun á þessu,“ sagði Arsene Wenger við enska fjölmiðla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert