Gagnrýna Arsenal fyrir 14 mínútna flug

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal.
Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal. AFP

Enskir umhverfisverndarsinnar gagnrýna Arsenal harðlega fyrir þá ákvörðun að fara með lið sitt fljúgandi til leiks í Norwich í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á morgun.

Frá höfuðstöðvum Arsenal í London er um tveggja og hálfs tíma akstur til Norwich og sé farið með lest tekur ferðin innan við tvo tíma. Flugferðin frá London til Norwich tekur 14 mínútur og Arsenal hefur einu sinni áður valið þennan ferðamáta þangað, fyrir þremur árum.

Ella Gilbert, talsmaður samtakanna Plane Stupid, sem berjast gegn neikvæðum umhverfisáhrifum sem stuttar flugferðir hafa, sagði við Evening Standard að hún hefði átt heima bæði í Finsbury Park, hverfi Arsenal, og í Norwich, og vissi vel hve fáránleg þessi ákvörðun væri.

„Ég hef haldið með Arsenal alla ævi og stundum skammast ég mín fyrir liðið, en mér finnst betra að það sé fyrir frammistöðuna á vellinum og sé gert upp í leikslok," sagði Gilbert.

Árið 2012 varði Wenger ákvörðunina um að fljúga til Norwich með því að annars hefði liðið þurft að keyra þangað í þungri umferð síðdegis á föstudegi og úr slíkum bílferðum gæti teygst von úr viti.

Ferðalag frá London til Norwich er svipað og að fara frá Reykjavík til Ólafsvíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert