Gerði Wenger mikil mistök?

Alexis Sánchez fer meiddur af velli í leiknum gegn Norwich …
Alexis Sánchez fer meiddur af velli í leiknum gegn Norwich í dag. AFP

Þrír sterkir leikmenn úr liði Arsenal meiddust í 1:1-jafnteflinu við Norwich í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Arsene Wenger hafði varað við því fyrir helgi að hugsanlega yrði aðalstjarna liðsins, Alexis Sánchez, að fá hvíld í dag vegna ónota í læri. Sánchez var hins vegar í byrjunarliðinu og fór svo af velli í seinni hálfleik, að því er virtist eftir að hafa tognað í lærinu. Stuðningsmenn Arsenal óttast eflaust margir að Wenger hafi gert stór mistök með því að láta Sánchez spila, og Frakkinn var spurður hvort hann hefði ekki átt að gefa Sílebúanum meiri tíma til að jafna sig:

„Það má segja það, en við erum ekki með marga möguleika í sóknarleiknum eins og er. Welbeck er meiddur, Walcott er meiddur og Chamberlain er rétt að komast af stað. Ég hefði hvílt hann í dag en hann sagðist ekki finna fyrir neinu fyrir leikinn, og sagði það ekkert vandamál að spila,“ sagði Wenger við Sky Sports.

Laurent Koscielny meiddist í mjöðm í fyrri hálfleik og Santi Cazorla gat lítið beitt sér á lokamínútunum eftir að hafa meiðst í hné, en Arsenal hafði þá notað allar sínar þrjár skiptingar. Wenger sagði óljóst hve alvarleg meiðsli þríeykisins væru en að það kæmi betur í ljós á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert