Getur ekki gleymt leiknum við Palace

Jürgen Klopp að störfum.
Jürgen Klopp að störfum. AFP

Jürgen Klopp segir að vissulega hafi fyrstu átta  vikurnar í starfi sem knattspyrnustjóri Liverpool verið ágætar en tapleikurinn gegn Crystal Palace sitji óþægilega mikið í sér.

Það er eina tap Liverpool í tíu leikjum undir stjórn Þjóðverjans, 1:2 á Anfield í úrvalsdeildinni, en annars hefur liðið unnið sex leiki og gert þrjú jafntefli á þessum tíma. Jafnteflin komu í fyrstu þremur leikjunum, gegn Tottenham, Rubin Kazan og Southampton. Sigrarnir eru gegn Bournemouth, Chelsea, Rubin Kazan, Manchester City, Bordeaux og Swansea.

„Ég get ekki gleymt þessum tapleik gegn Palace. Ef við hefðum unnið hann myndi ég segja að ég væri ánægður með hlutina," sagði Klopp við Sky Sports.

Hann kveðst hafa reynt að gera allt eins einfalt og hægt er á þessum fyrstu vikum. „Ég held að þetta hafi ekki verið svo slæmt. Við miðlum eins miklum upplýsingum til leikmannanna og ráðlegt er. Ef ég myndi reyna að segja þeim allt sem ég veit á hverjum degi, myndi ég ofgera þeim. Þetta snýst allt um réttar tímasetningar, gefa þeim réttar upplýsingar á réttum tíma. Við viljum ekki að þeir taki með sér heilu ritgerðirnar inná völlinn. Þetta er jú bara fótbolti. Við þurfum að spila fótbolta. Það er nóg að kunna orðið „spila". Kannski hefðum við getað gert betur en það munum við aldrei vita," sagði Klopp.

„Við höldum áfram, tímabilið er ekki nærri því hálfnað, og ekki heldur þróun liðsins. Við teljum allir að við eigum langa samvinnu fyrir höndum og verðum að einbeita okkur að næsta skrefi," sagði Þjóðverjinn, sem býr sitt lið undir leik gegn Southampton í átta liða úrslitum deildabikarsins annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert