Man. City af öryggi í undanúrslitin

Kelechi Iheanacho og Kevin De Bruyne fagna saman en þeir …
Kelechi Iheanacho og Kevin De Bruyne fagna saman en þeir voru báðir á skotskónum í kvöld. AFP

Manchester City átti ekki í neinum vandræðum með að slá út B-deildarlið Hull City í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu í kvöld.

City-menn unnu 4:1-sigur þar sem Kevin De Bruyne skoraði tvö mörk, en Wilfried Bony og Nígeríumaðurinn ungi Kelechi Iheanacho skoruðu sitt markið hvor. Iheanacho, sem er aðeins 19 ára gamall, hefur því skorað í báðum leikjum sínum í deildabikarnum. Hull minnkaði muninn í lokin með marki frá Andrew Robertson.

Everton komst einnig áfram í undanúrslitin í kvöld, með 2:0-sigri á B-deildarliði Middlesbrough á útivelli. Gerard Deulofeu og Romelu Lukaku skoruðu mörkin um miðjan fyrri hálfleik.

Þá komst Stoke áfram með 2:0-sigri á Sheffield Wednesday, sem leikur í B-deild eins og önnur taplið kvöldsins. Ibrahim Afellay og Phil Bardsley skoruðu mörk Stoke.

Fjórða liðið í undanúrslitunum verður annað hvort Southampton eða Liverpool, en þessi lið mætast á St Mary's annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert