Palace vill framherja Juventus

Alan Pardew vill bæta við sig framherja.
Alan Pardew vill bæta við sig framherja. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Crystal Palace hefur mikinn áhuga á því að fá framherja frá ítalska meistaraliðinu Juventus en þetta herma heimildir Goal.com.

Palace situr í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir fyrra hluta tímabilsins en Alan Pardew, knattspyrnustjóri liðsins, vill ólmur bæta við framherja í hópinn.

Samkvæmt heimildum Goal.com þá vill liðið fá ítalska landsliðsframherjann, Simone Zaza, frá Juventus en hann hefur verið í kuldanum hjá félaginu frá því hann kom frá Sassuolo síðasta sumar.

Zaza hefur einungis spilað sjö leiki fyrir Juventus í ítölsku deildinni á leiktíðinni en mörg félög hafa sýnt honum áhuga. Framherjinn vill ólmur komast í lið sem hann fær að spila til þess að eiga möguleika á að komast á Evrópumótið í Frakklandi með ítalska landsliðinu í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert