Klopp ánægður með Allardyce

Jürgen Klopp og Sam Allardyce.
Jürgen Klopp og Sam Allardyce. AFP

Jürgen Klopp og Sam Allardyce, knattspyrnustjórar Liverpool og Sunderland, hafa sent hvor öðrum skeyti síðustu daga.

Allardyce gagnrýndi Klopp fyrir að kvarta yfir meiðslum í sínum hópi og sagði að ástæðan fyrir þeim væri einföld. Þjóðverjinn væri of harður við sína leikmenn, þeir væru útkeyrðir og þessvegna meiddust þeir.

Klopp sagði hinsvegar á fréttamannafundi í morgun: „Ég er ánægður með Sam og að svona reyndur knattspyrnustjóri skuli gefa sér tíma til að velta fyrir sér vandamálum Liverpool!"

Liverpool mætir Exeter á útivelli í 3. umferð ensku bikarkeppninnar annað kvöld. Klopp staðfesti að hann væri með engan heilan miðvörð í þeim leik því Kolo Touré væri ekki leikfær, frekar en þeir Dejan Lovren, Martin Skrtel og Mamadou Sakho.

Klopp sagði jafnframt að Philippe Coutinho yrði ekki leikfær fyrr en í febrúar og hans tognun aftan í læri væri verri en hjá Lovren, en þeir fóru báðir af velli í fyrri hálfleik gegn Stoke í fyrrakvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert