Pato á leið til Liverpool?

Alexandre Pato í landsleik með Brasilíu.
Alexandre Pato í landsleik með Brasilíu. AFP

Ítalskir fjölmiðlar fullyrða að enska knattspyrnufélagið Liverpool hafi þegar samið um að kaupa brasilíska framherjann Alexandre Pato, fyrrverandi leikmann AC Milan, af Corinthians fyrir 11 milljón evrur, sem jafngildir rúmlega 8 milljónum punda.

Pato, sem er 26 ára gamall, þótti með efnilegustu leikmönnum heims og kom 17 ára gamall til AC Milan árið 2007. Hann var þar í fimm ár og skoraði 51 mark í 117 leikjum í A-deildinni. Pato lenti síðan í þrálátum meiðslum, lék síðast með AC Milan í nóvember 2012 og var seldur til Corinthians í heimalandi sínu fyirr 15 milljón evrur í janúar 2013.

Hann lék eitt tímabil með Corinthians en hefur verið í láni hjá Sao Paulo undanfarin tvö ár. Samtals hefur Pato skorað 28 mörk í 89 deildaleikjum á þessum þremur árum í heimalandi sínu.

Pato hefur spilað 27 landsleiki fyrir Brasilíu og skorað í þeim 10 mörk en hefur ekki leikið með landsliðinu frá 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert