Klopp allur að braggast

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er allur að koma til eftir …
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er allur að koma til eftir erfiða helgi . AFP

Jürgen Klopp var mættur til starfa að nýju eftir að hafa eytt helginni á sjúkrahúsi, en hann fékk botnlangakast aðfaranótt laugardagsins. Klopp ræddi við fjölmiðla um bikarleikinn gegn West Ham, en liðin mætast í endurteknum leik í fjórðu ensku bikarkeppninnar á Boleyn Ground annað kvöld. 

„Mér líður vel, það hafa margir gengið í gegnum það sem henti mig um helgina. Ég upplifði eina slæma nótt, en er við hestaheilsu í dag. Læknir liðsins sagði mér að fara á sjúkrahús en ég var ekki viss um það. Skurðlæknirinn var frábær, hann er ársmiðahafi svo hann missti líka af leiknum," sagði Klopp um atburði helgarinnar.

Daniel Sturridge, Philippe Coutinho og Divock Origi eru allir orðnir leikfærir eftir að hafa glímt við meiðsli undanfarið. 

„Daniel [Sturridge] var orðinn nægjanlega góður til þess að vera á varamannabekknum á laugardaginn og leit vel út á æfingu á föstudaginn. Ég vona að Divock [Origi] og Philippe [Coutinho] geti verið í leikmannahópnum á morgun,“ sagði Klopp um ástandið á þremenningunum. 

Liðið sem ber sigur úr býtum í leiknum á morgun mætir Blackburn Rovers í fimmtu umferð ensku bikarkeppninnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert