Gylfi hlaðinn lofi í Guardian

Aukaspyrnur Gylfa Þórs Sigurðssonar eru oftast stórhættulegar.
Aukaspyrnur Gylfa Þórs Sigurðssonar eru oftast stórhættulegar. AFP

Farið er afar fögrum orðum um Gylfa Þór Sigurðsson á vef The Guardian þar sem farið er yfir tíu umræðuefni eftir leiki síðustu helgar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Spurt er hvort Gylfi sé einfaldlega besti aukaspyrnusérfræðingur deildarinnar.

Gylfi, og hæfileikar hans þegar kemur að föstum leikatriðum eins og aukaspyrnunni sem hann skoraði úr fyrir Swansea um helgina, eru á meðal þess sem fjallað er um hjá The Guardian. Blaðamaðurinn og fyrrverandi atvinnumaðurinn Stuart James skrifar að vissulega hafi fátt verið hughreystandi við leiki Swansea í vetur, en eitt af því sé það þegar Gylfi stilli boltanum upp í föstu leikatriði.

Gylfi hefur skorað fimm mörk í síðustu sex leikjum, nú síðast í jafnteflinu við Crystal Palace, og James segir að nú sé svo komið að menn búist jafnvel frekar við því að hann skori þegar hann standi við boltann, 25 metrum frá markinu. Hann hafi verið afskaplega nálægt því að skora annað mark úr aukaspyrnu en Wayne Hennessey bjargað Palace með góðri markvörslu.

James segir að hornspyrnur Gylfa séu alla jafna einnig eins og best verður á kosið. Þær hafi skapað Swansea nokkur færi á laugardaginn. Þá bendir hann á að vítaspyrnur verði ekki betri en sú sem Gylfi skoraði úr gegn Everton, efst í markhornið.

„Fyrir lið sem á í vandræðum með að skora mörk þá er framlag Gylfa ómetanlegt,“ skrifar James að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert