Gylfi og félagar töpuðu á heimavelli

Swansea tapaði fyrir Southampton í dag.
Swansea tapaði fyrir Southampton í dag. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans í Swansea töpuðu, 1:0, fyrir Southampton á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í knatspyrnu. Eina mark leiksins skoraði Shane Long á 69. mínútu. Southampton er eftir leikinn í 7. sæti með 40 stig en Swansea er áfram með 27 stig í 16. sæti.

Fimm leikir í ensku úrvalsdeildinni hófust klukkan 15.00 og ekkert heimaliðanna hafði betur í sinni viðureign.

Everton tapaði á heimavelli gegn WBA, 1:0. Eina mark leiksins skoraði Solomon Rondon á 14. mínútu. Heimamenn voru mun meira með boltann, sköpuðu sér nokkur ágæt færi en tókst ekki að skora. WBA er nú í 13. sæti með 32 stig en Everton 10. með 35.

Watford sigraði Crystal Palace á útivelli, 2:1. Troy Deeney skoraði bæði mörk Watford sem nú er með 36 stig í 8. sæti deildarinnar. Eina mark Crystal Palace skoraði Emmanuel Adebayor en liðið er í 12. sæti með 32 stig.

Stoke sigraði Bournemouth, 3:1, á útivelli. Imb­ula, Afellay og Joselu skoruðu mörk gestanna en Ritchie lagaði stöðuna fyrir heimamenn. Stoke er í 9. sæti með 36 stig en Bournemouth er með 28 stig í 15. sæti.

Loks skildu Norwich og West Ham jöfn, 2:2 var lokastaðan í þeim leik. Heimamenn komust í 2:0 með mörkum frá Brady og Hoolahan en Payet og Noble jöfnuðu og þar við sat. Norwich er í 18. sæti með 24 stig en West Ham í því 6. með 40 stig.

Fylgst var með gangi mála í leikjunum í beinni textalýsingu:

Úrslit leikjanna sem hófust klukkan 15.00:

Swansea - Southampton 0:1 (Long, 69.)
Bournemouth - Stoke 1:3 (Ritchie, 56. - Imbula, 9., Afellay, 52., Joselu, 55.)
Crystal Palace - Watford 1:2 (Adebayor, 45. - Deeney, 16., 82.)
Everton - WBA 0:1 (Salomon Rondon, 14.)
Norwich - West Ham 2:2 (Brady, 54., Hoolahan, 56. - Payet, 73., Noble, 76.)

90. Leikjunum fimm sem hófust klukkan 15.00 er lokið.

82. MARK! Watford kemst yfir gegn Crystal Palace þegar lítið er eftir af leiknum. Deeney skorar sitt annað mark í leiknum og kemur gestunum í 2:1 forystu.

76. MARK! Jahérna hér! Stuðningsmenn Norwich höfðu ekki langan tíma til að naga neglurnar því West Ham er búið að jafna, staðan er 2:2. Noble skoraði jöfnunarmark West Ham og enn eru um það bil 15 mínútur eftir af leiknum.

73. MARK! West Ham minnkar muninn, staðan 2:1 fyrir Norwich. Hinn frábæri Payet skoraði markið og nú munu stuðningsmenn Norwich naga neglurnar það sem eftir lifir leiks.

69. MARK! Ekki lítur þetta vel út fyrir Gylfa og félaga hans í Swansea því Shane Long var að koma Southampton yfir gegn þeim, staðan er 1:0 í Wales!

65. MARK! Hoolahan skorar annað mark Norwich og kemur þeim í tveggja marka forystu gegn West Ham.

56. MARK! Bournemouth svarar fyrir sig í næstu sókn, staðan er 3:1! Ritchie skorar með fallegu skoti og gefur heimamönnum von. Ég var kannski of fljótur á mér þegar ég sagði að sigur Stoke væri nánast gulltryggður!

55. MARK! Stoke er að ganga frá Bournemouth, staðan er skyndilega orðin 3:0. Varamaðurinn Joselu kemur boltann í netið og nánast gulltryggir sigur Stoke.

54. MARK! Norwich er komið yfir gegn West Ham, staðan er 1:0! Robbie Brady kemur heimamönnum yfir, Össuri Skarphéðinssyni til mikillar gleði.

52. MARK! Fyrsta mark síðari hálfleiks er komið og það eru Stoke-arar sem gera það. Afellay kemur Stoke í 2:0 gegn Bournemouth!

46. Síðari hálfleikur er hafinn!

45. Fyrri hálfleik í leikjunum sem hófust klukkan 15.00 er lokið. Mörkin gætu verið fleiri en við hljótum að fá markaveislu í síðari hálfleik. Sérstaklega er auglýst eftir mörkum frá Wales!

45. MARK! Adebayor er búinn að jafna fyrir Crystal Palace gegn Watford, staðan er 1:1. Tógó-búinn skorar þar með sitt fyrsta mark fyrir Palace en hann gekk til liðs við félagið á dögunum.

40. Aftur setur Everton boltann í tréverkið. Í þetta skiptið var það Cleverley en fyrirgjöf hans endaði í markstönginni.

38. Barkley með þrumuskot fyrir Everton en boltinn fer í stöngina. Heimamenn óheppnir að staðan sé ekki jöfn.

23. Gylfi lætur skot ríða af en boltinn fer víðsfjarri markinu. Um að gera samt fyrir Gylfa að reyna, enda hefur hann skorað fimm mörk í síðustu sex leikjum.

16. MARK! Watford er komið yfir gegn Crystal Palace, staðan 1:0. Deeney, fyrirliði Watford skoraði markið úr vítaspyrnu sem dæmd var á Jedinak fyrir að halda Deeney í teignum.

14. MARK! Salomon Rondon er búinn að koma WBA yfir gegn Everton, staðan 1:0 fyrir gestina eftir þeirra fyrstu sókn!

9. MARK! Stoke er komið yfir gegn Bournemouth. Imbula skoraði markið. Hann tók boltann á lofti, rétt fyrir utan vítateig og smellti honum í markhornið!

1. Þá er boltinn farinn að rúlla vítt og breitt um England og Wales.

Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan:

Swansea: Fabianski, Rangel, Fernandez, Williams, Taylor, Britton, Cork, Sigurdsson, Routledge, Ayew, Paloschi.
Southampton: Forster, Clasie, Fonte, Long, Romeu, Davis, Ward-Prowse, Van Dijk, Pelle, Bertrand, Targett.

Bournemouth: Boruc, Smith, Francis, Cook, Daniels, Surman, Gosling, Arter, Stanislas, Pugh, Afobe.
Stoke: Butland, Pieters, Muniesa, Wollscheid, Johnson, Imbula, Whelan, Walters, Afellay, Shaqiri, Diouf.

Crystal Palace: Hennessey; Ward, Dann, Delaney, Souare; Zaha, Jedinak (c), Cabaye, Mutch; Wickham, Adebayor.
Watford: Gomes; Nyom, Prödl, Cathcart, Ake; Behrami, Watson, Capoue; Amrabat, Deeney; Ighalo.

Everton: Joel, Oviedo, Funes Mori, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Cleverley, Barkley, Lennon, Lukaku.
WBA: Foster; Olsson, Chester, Yacob, Evans, McClean, Berahino, Fletcher, Dawson, Sessegnon, Rondon

Norwich: Ruddy; Martin, Klose, Bassong, Brady; Howson, O'Neil; Redmond, Hoolahan, Naismith; Jerome.
West Ham: Adrian, Byram, Collins, Ogbonna, Cresswell, Song, Noble ©, Obiang, Antonio, Payet, Valencia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert